Golf

Rory aðeins fjórði kylfingurinn sem kemst í tíu milljarða hópinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rory McIlroy var frábær á síðasta móti tímabilsins.
Rory McIlroy var frábær á síðasta móti tímabilsins. Getty/ Cliff Hawkins
Norður Írinn Rory McIlroy var frábær á lokamóti FedEx bikarsins og tryggði sér öruggan sigur og næstum því tvo milljarða í verðlaunafé með stórglæsilegri spilamennsku.

Rory McIlroy endaði Tour Championship á 18 höggum undir pari en í raun lék hann hringina fjóra á þrettán höggum undir pari. Samkvæmt nýjum reglum FedEx bikarsins þá koma menn með forgjöf inn á mótið út frá frammistöðu manna í mótinu á undan. Rory byrjaði því á fimm höggum undir pari og fimm höggum á eftir efsta manni. Hann vann það upp og tryggði sér sigurinn með því að leika lokahringinn á fjórum höggum undir pari.

Með þessum sigri varð Rory McIlroy aðeins annar maðurinn á eftir Tiger Woods sem nær að vinna FedEx bikarinn tvisvar sinnum en Rory vann hann einnig árið 2016. Rory McIlroy komst einnig í annan úrvalshóp með því að tryggja sér fimmtán milljónir Bandaríkjadala í verðlaunafé.





Með þessum fimmtán milljónum dala, tæpum tveimur milljörðum íslenska króna, er Rory búinn að vinna sér inn 24,3 milljónir dala í verðlaunafé á þessu ári. Enginn kylfingur hefur unnið sér i svo mikinn pening á einu ári.

Þessar rúmu 24 milljónir Bandaríkjadala, sem norður-írski kylfingurinn vann sér inn á árinu 2019, sáu einnig til þess að Rory McIlroy er kominn yfir 80 milljónir dala, tæpa tíu milljarða íslenskra króna, í heildarverðlaunafé á ferlinum.

Það eru aðeins þrír aðrir kylfingar sem hafa náð því en það eru þeir Tiger Woods, Phil Mickelson og Vijay Singh. Tiger er sá eini af þeim sem er kominn yfir hundrað milljónir Bandaríkjadala.  





Rory McIlroy hélt upp á þrítugs afmælið sitt fyrr á þessu ári og hefur allt til alls til að bæta vel við þetta verðlaunafé sitt í framtíðinni.

Hann hefur unnið fjögur risamót á ferlinum eða öll risamót í boði nema nema Mastersmótið. Rory vann PGA-meistaramótið 2012 og 2014, Opna bandaríska mótið 2011 og Opna breska meistaramótið 2014.

Árið 2019 var frábært hjá honum fyrir utan vonbrigðin á fyrsta hring á heimavelli á Opna breska meistaramótinu í sumar og svo enn eitt svekkelsið á Mastersmótinu í ár þar sem hann endaði í 21. sæti eftir að hafa leikið fyrsta hringinn á einu höggi yfir pari.

Rory vann The Players Championship í mars, Opna kanadíska mótið í júní og svo Tour Championship í lok ágúst. Þetta eru fleiri sigrar á mótum en samanlögð tvö ár á undan og kannski tákn um það sem koma skal hjá þessum vinsæla og skemmtilega kylfingi.

Getty/Kevin C. Cox



Fleiri fréttir

Sjá meira


×