Erlent

Sao Paulo myrkvuð vegna reyks frá Amasóneldunum

Andri Eysteinsson skrifar
Amazonfrumskógurinn bindur gríðarlegt magn kolefnis.
Amazonfrumskógurinn bindur gríðarlegt magn kolefnis. AP/Corpo de Bombeiros de Mato Grosso
Gríðarlegir skógareldar loga nú á miklu svæði í Amasón regnskóginum í Suður-Ameríku. Christian Poirier, stjórnandi samtakanna Amazon Watch segir líkur á því að eldarnir hafi kviknað af mannavöldum. Þá sérstaklega af bændum og skógarhöggsmönnum sem vilji ryðja land. Miklir eldar hafa geisað undanfarnar vikur í hluta Amasónregnskógarins í Suður-Ameríku.

Eldnum mikla fylgir mikill reykur en áhrifa hans var að gæta í stærstu borg Brasilíu í gær, Sao Paulo. Um miðjan dag umlykti reykur alla borginna og fljótlega eftir hádegi varð orðið dimmt. AP greinir frá.



Brasilískar stofnanir hafa greint frá því að í Brasilíu hafi metfjöldi elda kviknað á árinu 2019. Eldarnir í ár hafa verið 74.155 en um er að ræða 84% aukningu frá sama tímabili í fyrra.

Stjórnvöld í Brasilíu hafa verið harðlega gagnrýnd og þá helst forsetinn Jair Bolsonaro, sem tók við embætti um síðustu áramót. Þykja stefnumál hans sem snúa að því að efla iðnað á svæðinu, hafa stuðlað að þessum metfjölda skógarelda í ár.

Umhverfisráðherra Brasilíu, Ricardo Salles, var endurtekið truflaður við ræðuhöld á ráðstefnu um hnatthlýnun í brasilísku borginni Salvador í gær. Mótmælendur kölluðu „Amasón brennur“ látlaust eftir að Salles steig í pontu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×