Enski boltinn

Englandsmeistari hætti eftir 34 daga af því að félagið hafði ekki efni á launum hans

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Shinji Okazaki með enska meistarabikarinn vorið 2016.
Shinji Okazaki með enska meistarabikarinn vorið 2016. Getty/Shaun Botterill
Shinji Okazaki vann ensku deildina með Leicester City vorið 2016 en skipti um lið í sumar eftir fjögur á með Leicester. Hann samdi við Malaga en entist ekki lengi þar.

Shinji Okazaki og forráðamenn Malaga liðsins hafa nú komist að samkomulagi um að segja upp samningi leikmannsins eftir aðeins 34 daga. Hann var með eins árs samning.

Spænska félagið hefur ekki efni á launum Japanans og Shinji Okazaki er nú laus allra mála. Hann getur því fundið sér nýtt lið. Málið var að Malaga fékk ekki leikheimild fyrir Okazaki því félagið kom ekki laununum hans undir launaþak liðsins.





Shinji Okazaki skoraði 19 mörk í 137 leikjum með Leicester frá 2015 til 2019 en hann skoraði 5 mörk á meistaratímabilinu sem var jafnframt hans fyrsta í enska boltanum.

Okazaki náði ekki að spila leik með Malaga en hann hefur ekkert komið við sögu í þremur leikjum félagsins á tímabilinu.

Shinji Okazaki spilaði í Þýskalandi áður en hann kom til Leicester en hann hefur skorað 50 mörk í 119 landsleikjum með Japan frá árinu 2008.

Shinji Okazaki er 33 ára gamall og hefur spilað í Evrópu frá því að hann var 24 ára (2010).  Nú gæti hann mögulega verið á heimleið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×