Enski boltinn

Hélt Gylfa stundum fyrir utan liðið hjá Tottenham en er nú á leiðinni frítt til Blackburn

Anton Ingi Leifsson skrifar
Lewis Holtby er á leið í enska boltann.
Lewis Holtby er á leið í enska boltann.
Fyrrum miðjumaður Tottenham, Lewis Holtby, er á leiðinni til B-deildarliðsins Blackburn en hann er laus allra mála eftir að hafa yfirgefið Hamburger Sport-Verein í sumar.

Holtby er 29 ára gamall miðjumaður sem á enskan faðir en þýska móður. Hann ákvað að framlengja ekki samning sinn í Þýskalandi þar sem hann hafði leikið í nokkur ár en HSV leikur í þýsku B-deildinni.

Holtby gat farið til Kína og Tyrklands en langar að fara til Englands og nú gæti hann verið að semja við Blackburn. Hann sást á æfingasvæði félagsins í gær þar sem hann gekk undir læknisskoðun.

Hann lék með Tottenham á sama tíma og Gylfi Þór Sigurðsson var á mála þar, eða á árunum 2013 til 2015.

Í fjölmörgum leikjum var það Holtby sem fékk frekar tækifærið í byrjunarliðinu en ferlar þeirra hafa farið í sitthvora áttina eftir það.

Blackburn er í 12. sæti deildarinnar, sex stigum á eftir toppliði deildarinnar Leeds United, en Blackburn endaði í 15. sætinu á síðustu leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×