Erlent

Gúmmíkúlum og táragasi skotið að mótmælendum í Hong Kong

Kjartan Kjartansson skrifar
Mótmælendur vörðu sig fyrir táragasi lögreglu með regnhlífum.
Mótmælendur vörðu sig fyrir táragasi lögreglu með regnhlífum. Vísir/EPA
Lögreglan í Hong Kong beitti háþrýstivatnsdælum, gúmmíkúlum og táragasi gegn mótmælendum sem köstuðu bensínsprengjum og múrsteinum í dag. Átök lögreglumanna og mótmælenda í dag voru ein þau hörðustu frá því að regluleg mótmæli hófust í borginni fyrir rúmum þremur mánuðum.

Í brýnu sló á milli lögreglu og mótmælenda í nótt í kjölfar friðsamlegrar samkomu til stuðnings lýðræðis sem fór fram í gær. Mótmælendur eru sagðir hafa varið sig með regnhlífum fyrir táragasi sem lögreglumenn skutu af þaki þinghússins. Sumir þeirra hafi kastað táragashylkjum til baka að lögreglu.

Reuters-fréttastofan segir að mótmælendur hafi reist götuvirki með innkaupakerrum og ruslatunnum. Einn þeirra hafi kastað bensínsprengju í neðanjarðarlestarstöð. Annarri hafi verið varpað inn á lóð stjórnarbyggingar þar sem fjöldi rúðna var brotinn.

Búist er við enn frekari mótmælum í aðdraganda sjötíu ára afmælis kínverska alþýðulýðveldisins á þriðjudag.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×