Erlent

Tveir létust þegar rússí­bana­vagn fór út af teinunum

Sylvía Hall skrifar
Chimera rússíbaninn í La Feria Chapultepec skemmtigarðinum.
Chimera rússíbaninn í La Feria Chapultepec skemmtigarðinum. Youtube
La Feria Chapultepec skemmtigarðinum í Mexíkóborg var lokað tímabundið í gær eftir að tveir létu lífið og tveir slösuðust í slysi sem varð í rússíbana í garðinum. Yfirvöld rannsaka nú tildrög slyssins.

Í frétt BBC kemur fram að slysið varð þegar aftasti vagn rússíbanans Chimera fór út af teinunum með þeim afleiðingum að farþegar vagnsins féllu til jarðar. Að sögn sjónarvotta virtist ekkert vera að rússíbananum fyrst um sinn og hafði rússíbaninn farið nokkrar lykkjur þegar slysið varð.

Í myndbandsupptökum sést þegar aftasti vagninn fer út af teinunum. Mikil hræðsla greip um sig á meðal viðstaddra og þurfti lögregla að halda fólki fjarri á meðan viðbragðsaðilar hlúðu að farþegum.

Forsvarsmenn garðsins segjast harma slysið og munu aðstoða yfirvöld við rannsókn málsins. Þau ætli sér að komast til botns í málinu og finna út hvað olli slysinu og hver sé ábyrgur. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×