Enski boltinn

„Mane er besti leikmaður í heimi“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Sadio Mane í leik Liverpool gegn Chelsea um síðustu helgi.
Sadio Mane í leik Liverpool gegn Chelsea um síðustu helgi. vísir/getty
Ismaila Sarr, leikmaður Watford, segir að samlandi sinn og leikmaður Liverpool, Sadio Mane, sé besti leikmaður í heimi um þessar mundir.

Sarr gekk í raðir Watford frá Rennes í sumar er hann var keyptur á metfé en þeir fóru saman með Senegal í úrslitaleik Afríkumótsins í sumar. Þar biðu þeir í lægri hlut fyrir Alsír.

Mane hefur haldið uppteknum hætti frá síðustu leiktíð í liði Liverpool en hann hefur skorað fjögur mörk í fyrstu sex leikjum liðsins. Liverpool er með fullt hús eftir sex leiki.

„Mane er einn besti leikmaður í Afríku og í heiminum. Að mínu mati er hann besti leikmaður í heimi vegna gæða hans. Hann vann Meistaradeildina,“ sagði hann við heimasíðu Watford.

„Hann hefur gert allt fyrir Liverpool og í öllum keppnum, því miður ekki í ensku úrvalsdeildinni, en ég vona að það gerist einn daginn því hann er besti afríski leikmaðurinn í Evrópu.“







„Hann spilar vel og gerir allt vel hvort sem það er í fótbolta eða lífinu sjálfu. Hann er fyrirliði okkar þjóðar. Hann gerir allt rétt, einnig fyrir utan fótboltann því hann er góður náungi og veit hvað er rétt,“ sagði Sarr.

Sarr hefur spilað fimm leiki fyrir Watford eftir að hann kom til félagsins í sumar en eina mark hans kom í 2. umferð Carabao-bikarsins er hann skoraði gegn Coventry.

Watford er á botni deildarinnar og heimsækir Wolves um helgina í leit að sínum fyrsta sigri þetta tímabilið í deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×