Enski boltinn

„Viðtalið við David de Gea eftir leikinn er skammarlegt“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Sparkspekingurinn og fyrrum leikmaðurinn Paul Ince.
Sparkspekingurinn og fyrrum leikmaðurinn Paul Ince. vísir/getty
Paul Ince, fyrrum leikmaður Manchester United, líst ekki á blikuna hjá sínu gamla félagi en hann lét gamminn geisa er hann ræddi um félagið fyrir veðmálamiðilinn Paddy Power.

United hefur verið í miklum vandræðum. Liðið gerði í síðustu viku markalaust jafntefli við AZ Alkmaar í Evrópudeildinni áður en liðið tapaði fyrir Newcastle á sunnudaginn.

„Viðtalið við David de Gea eftir leikinn er skammarlegt. Hann þarf að vera leiðtogi núna. Hann á að vera leiðtogi liðsins og þetta viðtal hefði aldrei átt sér stað ef þetta hefði verið Peter Schmeichel,“ sagði Paul.

„Í stað þess að segja hvað væri að fara úrskeiðis hjá liðinu þá sagði hann bara; ég veit ekki, ég veit ekki. Þetta er einn af toppleikmönnunum hjá félaginu, leiðtoginn sem var að skrifa undir fimm ára samning og hann hefur enga hugmynd um hvað er að gerast.“







Ince er ekki viss um að Ole Gunnar Solskjær sé rétti maðurinn í starfið og undrar sig á því afhverju stjórn United hafi verið svona fljót til að gefa honum langtímasamnig.

„Það sem ég sá á sunnudaginn var Manchester United lið sem vantaði sjálfstraust en það sem er meira áhyggjuefni er að þeir eru stefnulausir. Það vantar leiðtoga, gæði og karakter í þetta lið og félagið.“

„Ég er ekki hér að kalla eftir því að stjórinn verði rekinn. Ég hef verið það og það er ekki góð tilfinning en ég segi það aftur sem ég sagði áður. Stjórnin átti aldrei að gefa honum langtímasamning svona fljótt.“

„Hann fór til Cardiff og fór niður með þá. Þaðan fór hann til Molde. Svo hvernig á hann skilið þetta starf sem er eitt stærsta, ef ekki það stærsta í fótboltaheiminum?“ sagði ósáttur Ince.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×