Leyndardómar Elliðaárdals, helstu perlu Reykjavíkur, verða viðfangsefni fyrsta þáttar vetrarins í þáttaröðinni „Um land allt“ á Stöð 2, sem sýndur verður á mánudagskvöld. Þar fá áhorfendur að kynnast mannlífi á bökkum Elliðaánna fyrr og nú í fylgd Reynis Vilhjálmssonar landslagsarkitekts.
Farið verður inn í Elliðaárstöð þar sem Eiríkur Hjálmarsson, upplýsingafulltrúi Orkuveitu Reykjavíkur, fer yfir sögu hennar og segir frá framtíðaráformum um nýtingu rafstöðvarinnar. Fyrrum íbúar í stöðinni rifja upp hvernig lífið var í dalnum á árum áður.
Við skoðum Sveinbjörnslund í Ártúnsbrekku í fylgd Jóns Sveinbjörnssonar guðfræðiprófessors, sem sýnir okkur hæsta tré Reykjavíkur, en Jón hefur búið í dalnum í 85 ár.
Þá hittum við Ársæl Árnason, einn stofnenda Fonbílaklúbbsins, sem dundar sér við að gera upp gamla bíla í bílskúr við heimili sitt, Hraunteigi, við hlið Árbæjarstíflu.
Við forvitnumst um allar kanínurnar sem orðnar eru áberandi í dalnum og ræðum við verndara þeirra, Hall Heiðar Hallsson, sem býr í húsinu Skálará neðan Stekkjarbakka.
Þá kynnumst við því hvernig dalurinn hefur á fáum áratugum breyst úr gróðurvana svæði í einn mesta skógarsal landsins og hvernig hann nýtist borgarbúum jafnt sem náttúruparadís og auðlindauppspretta.
Þátturinn er á dagskrá Stöðvar 2 á mánudagskvöld, 21. október, klukkan 19.25. Hér má sjá sýnishorn:
Lífið