Enski boltinn

Man. United sagt tilbúið að borga uppsett verð fyrir enska undrabarnið í Dortmund

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jadon Sancho í tíunni með enska landsliðinu.
Jadon Sancho í tíunni með enska landsliðinu. Gwetty/PressFocus/MB Media
Jadon Sancho gæti verið orðinn leikmaður Manchester United í janúar ef marka má fréttir dagsins í ensku blöðunum.

Daily Mirror slær því upp að Manchester United sé tilbúið að borga þá háu upphæð sem Borussia Dortmund setur á enska landsliðsmanninn.

Dortmund vill fá hundrað milljónir punda fyrir þennan 19 ára strák sem hefur heldur betur slegið í gegn, bæði í þýsku deildinni sem og í fyrstu landsleikjum sínum með Englandi.





Dortmund keypti Jadon Sancho frá Manchester City árið 2017 fyrir átta milljónir punda en Sancho kom upp í gegnum akademíuna hjá Watford.

Sancho er með 18 mörk og 30 stoðsendingar í 68 leikjum með Borussia Dortmund og er síðan með tvö mörk og þrjár stoðsendingar í tíu leikjum með enska landsliðinu.

Jadon Sancho skrifaði undir nýjan samning við Dortmund í ágúst og fær 190 þúsund pund í vikulaun. Hann hefur svarað því með því að skora fjögur mörk og gefa sjö stoðsendingar í átta fyrstu deildarleikjum tímabilsins.

Jadon Sancho hefur sýnt því áhuga að spila í ensku úrvalsdeildinni en hann hefur einnig nefnt Spán sem áhugaverðan stað fyrir sig í framtíðinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×