Erlent

Nýr for­seti kjörinn í Argentínu

Atli Ísleifsson skrifar
Cristina Fernández de Kirchner og Alberto Fernández fagna sigrinum í gær.
Cristina Fernández de Kirchner og Alberto Fernández fagna sigrinum í gær. Getty
Stjórnarandstæðingurinn og mið-vinstrimaðurinn Alberto Fernández var kjörinn nýr forseti Argentínu í forsetakosningum sem fram fóru í gær. Kosningabaráttan einkenndist af deilum um efnahagsmál og bága fjárhagsstöðu argentínska ríkisins.

Fernández tryggði sér um 48 prósent atkvæða þar sem hann hafði betur gegn sitjandi forseta, íhaldsmanninum Mauricio Macri, sem hefur gegnt embættinu frá 2015. Fái frambjóðandi 45 prósent atkvæða eða meira er lögum samkvæmt ekki þörf á annarri umferð í forsetakosningunum.

Fjöldi fólks var saman kominn í kosningamiðstöð Fernández í gærkvöldi þar sem sigrinum var fagnað. Cristina Fernández de Kirchner, forseti Argentínu á árunum 2007 til 2015, var varaforsetaefni Fernández og fagnaði með honum á sviði.

Argentína glímir nú við mikla efnahagskreppu og í frétt BBC kemur fram að þriðjungur íbúa landsins lifi undir fátæktarmörkum.

Macri óskaði keppinaut sínum til hamingju með sigurinn og hefur boðið Fernández til fundar í forsetahöllinni í dag til að tryggja friðsöm og skilvirk valdaskipti.

Þegar búið var að telja rúmlega 90 prósent atkvæða var Fernández með 47,79 prósent atkvæða en Macri 40,71 prósent.

Alberto Fernández mun taka við forsetaembættinu þann 10. desember næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×