Shigeru Miyamoto, höfundur tölvuleikjanna vinsælu um Maríóbræður, verður heiðraður af ríkisstjórn Japans á sunnudag, 3. nóvember, fyrir framlag hans til menningarinnar en það er einmitt svokallaður menningardagur landsins.
Miyamoto, sem er 66 ára, er goðsögn í tölvuleikjaiðnaðinum, sem hefur vaxið mikið á undanförnum árum og veltir meira en aðrar afþreyingargreinar, svo sem kvikmyndir og tónlist. Hann hóf feril sinn hjá Nintendo árið 1977 og hannaði meðal annars hinn geysivinsæla spilakassaleik Donkey Kong árið 1981.
Árið 1984 varð Miyamoto framkvæmdastjóri hönnunar hjá Nintendo, staða sem hann gegndi allt til ársins 2015 og starfar hann enn þá hjá fyrirtækinu. Þegar fyrsta heimaleikjatölva fyrirtækisins, NES, sló í gegn árið 1986 var það að miklu leyti leikjum Miyamoto að þakka, Super Mario Bros og The Legend of Zelda. Hinn ítalski pípulagningamaður Mario hefur síðan orðið einn helsti tákngervingur fyrir tölvuleikjaiðnaðinn í heild.
„Við munum gera okkar allra besta til að fá fólk alls staðar í heiminum til að brosa,“ sagði Miyamoto þegar honum var tilkynnt um viðurkenninguna. Hann sagði einnig að öll hönnunardeildin hjá Nintendo ætti heiðurinn skilið.
Nintendo lagði keppinauta sína í Sega að velli á níunda áratugnum en varð síðan undir í samkeppni við Playstation og Xbox. Nintendo hafði ekki burði til þess að keppa við framleiðendur þeirra, Sony og Microsoft, hvað búnað varðar. Hefur fyrirtækið því á undanförnum árum þurft að beita hugvitinu og setja öðruvísi tölvur á markað, svo sem Wii og Switch.
Erlent