Matsfyrirtækið Moody's hækkaði í gær lánshæfiseinkunn ríkissjóðs. Meginástæður þessa er sagðar vera að útlit sé fyrir áframhaldandi lækkun skulda ríkissjóðs og aukinn viðnámsþrótt efnahagslífsins sem eykur þol hagkerfisins gagnvart efnahagsáföllum.
Matsfyrirtækið hækkaði lánshæfiseinkunnina um eitt þrep í A2 úr A3 og segir horfur hér á landi vera stöðugar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Moody's sem vísað er til á vef stjórnarráðsins. Matsfyrirtækið bendir á að skuldir ríkisins hafi lækkað verulega frá árinu 2011 og að innleiðing laga um opinber fjármál og bætt umgjörð ríkisfjármála sé líkleg til að varðveita þann árangur.
Í frétt stjórnarráðsins kemur fram að einkunn ríkissjóðs sé nú sambærileg hjá matsfyrirtækjunum Moody‘s, Fitch og Standard & Poor‘s sem meti lánshæfi ríkissjóðs.
Viðskipti innlent