Sálfræðingur sagði frá því í hádegisfréttum Bylgjunnar að kulnun og örmögnun virðist vera að aukast meðal landans. Það taki um eitt til þrjú ár að ná sér. Þá sagði ungur læknir frá því í gær að hann hefði glímt við kulnun og það hefði komið á óvart hversu hratt einkenni hennar hefði þróast og hversu langan tíma tæki að ná sér. Loks hafa rannsóknir sýnt að sjö af hverjum tíu læknum hér á landi telja sig vera undir of miklu álagi í störfum sínum.
Ráðstefna um streitu fór fram í Salnum í Kópavogi um helgina og er þetta önnur ráðstefnan um efnið á stuttum tíma. Uppselt var á viðburðinn og segja skipuleggjendur mikla þörf fyrir í fræðslu um streitu. Gyða Dröfn Tryggvadóttir er ein þeirra.
„Þörfin er greinilega svo mikið að við þurftum að halda ráðstefnu númer tvö og mér sýnist stefna í ráðstefnu númer þrjú. Það er gott en það segir okkur líka að það er tilefni til að skoða þessi mál af ennþá meiri alvöru í samfélaginu,“ segir Gyða.
Hún segir marga þætti valda því að fólk finni fyrir einkennum of mikillar streitu eða kulnunar.
„Við þurfum að skoða þetta heildrænt og það er það sem við höfum einmitt séð hjá þeim sem hafa haldið erindi á ráðstefnunum, þetta eru margir þættir sem spila inní ástandið. Eitt af því sem ég hef skoðað eru samskipti en það hvernig við ölumst upp og hvernig æskan okkar er mótar okkur og stundum er fólk að burðast með bagga sem veldur því svo að samskipti verða erfiðari og það verður mun viðkvæmara fyrir álagsþáttum í lífinu,“ segir Gyða.
Kristín Sigurðardóttir slysa-og bráðalæknir var meðal þeirra sem sagði frá einkennum ofurálags á ráðstefnunni og þar kom fram að einkennin séu af margvíslegum toga. Þannig geta líkamleg einkenni verið hjartsláttartruflanir, höfuð-og eða magaverkir og bæling ónæmiskerfist og andleg einkenni geta verið minnis-og eða svefntruflanir og kvíði og eða þunglyndi.
Of mikil streita of lengi
Líkamleg einkenni
- Örari hjartsláttur, hjartsláttartruflun
- Hækkaður blóðþrýstingur
- Örari öndun, andvörp
- Magaverkur, ristilkrampi
- Höfuðverkur
- Breyting á matarlyst
- þurr í munni, lakari melting
- Þyngdartap/aukning
- Niðurgangur
- Tíð þvaglát
- Verkir
- Bæling ónæmiskerfis
- Aukning á sýkingum og sjúkdómum
- Kyndeyfð. Minnkuð frjósemi
Andleg einkenni
- Skerðir einbeitingu, þokusjón
- Truflar minni
- Torveldar ákvarðanatöku
- Erfiðara að ljúka verkefnum
- Óskipulag
- Viðkvæmni
- Eykur alhæfingar, pirring og reiði
- Þreyta
- Svefntruflanir
- Kulnun í lífi og starfi
- Kvíði og þunglyndi