Golf

McIlroy vann í bráðabana í Sjanghaí

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
McIlroy með sigurlaunin.
McIlroy með sigurlaunin. vísir/getty
Norður-Írinn Rory McIlroy vann sigur á heimsmótinu í golfi í Sjanghaí í Kína. McIlroy hafði betur gegn Bandaríkjamanninum Xander Schauffele í bráðabana. Sá síðarnefndi átti titil að verja.



Þeir voru báðir á 19 höggum undir pari eftir lokahringinn. McIlroy lék hann á fjórum höggum undir pari en Schauffele á sex höggum undir pari.

Sá bandaríski tryggði sér bráðabana með því að setja niður pútt fyrir fugli á lokaholunni. Það var hans sjöundi fugl á lokahringnum.



McIlroy fékk fugl á fyrstu holunni í bráðabananum en Schauffele aðeins par og það var nóg til að tryggja þeim norður-írska sinn fyrsta sigur á heimsmótinu.



Þetta var jafnframt fjórði sigur McIlroys á PGA-mótaröðinni í ár. Hann tapaði ekki höggi á síðustu tveimur hringjunum á heimsmótinu.



Louis Oosthuizen frá Suður-Afríku varð þriðji á 17 höggum undir pari. Hann var í 2. sæti fyrir lokahringinn.

Austurríkismaðurinn Matthias Schwab, Victor Perez frá Frakklandi og Mexíkóinn Abraham Ancer voru jafnir í 4. sæti á 15 höggum undir pari.

Matthew Fitzpatrick varð sjötti á 14 höggum undir pari. Englendingurinn var efstur eftir fyrstu tvo hringina.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×