Ríkisstjórnin samþykkti í morgun að veita fimm milljónir af ráðstöfunarfé sínu til hjálparsamtaka hér á landi í aðdraganda jóla og aðrar fimm í viðbótargreiðslur til umsækjenda um alþjóðlega vernd.
Þetta kemur fram í tilkynningum á vef stjórnarráðsins. Þar segir að undanfarin ár hafi umsækjendur um alþjóðlega vernd hér á landi fengið greiðslu í desember til viðbótar við fastar framfærslugreiðslur.
Í lok október hafi tæplega 600 umsækjendur um alþjóðlega vernd notið þjónustu hjá Útlendingastofnun og sveitarfélögunum Reykjavík, Hafnarfirði og Reykjanesbæ.
Þá segir ennfremur að ríkisstjórnin hafi samþykkt á fundi sínum í morgun að veita fimm milljónir króna af ráðstöfunarfé sínu til hjálparsamtaka hér á landi í aðdraganda jóla.
„Um er ræða Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur, Mæðrastyrksnefnd Akureyrar, Mæðrastyrksnefnd Hafnarfjarðar, Mæðrastyrksnefnd Kópavogs, Mæðrastyrksnefnd Vesturlands, Hjálparstarf kirkjunnar, Samhjálp-félagasamtök, Hjálpræðisherinn á Íslandi, Rauða kross Íslands og Fjölskylduhjálp Íslands,“ segir í tilkynningunni.
