Menning

Síldarstúlkan mætti í útgáfuhófið

Kolbrún Bergþórsdóttir skrifar
Páll Baldvin afhendir Erlu Nönnu eintakið af stórvirki sínu.
Páll Baldvin afhendir Erlu Nönnu eintakið af stórvirki sínu.
Stórvirki Páls Baldvins Baldvinssonar Síldarárin kom nýlega út. Forsíðu bókarinnar prýðir mynd af ungri stúlku í síldarvinnslu. Þegar kápumyndin var valin höfðu útgefendur bókarinnar ekki hugmynd um hver þessi stúlka væri, en eftir töluverða eftirgrennslan tókst að finna hana. Myndin er tekin af sænskum manni sem var á Íslandi um og upp úr 1950, en stúlkan er íslensk og heitir Erla Nanna Jóhannesdóttir. Hún mætti í útgáfuhófið og tók á móti sínu eintaki með bros á vör.



Forsíða bókarinnar þar sem Nanna Erla borðar nestið sitt.
Erla Nanna var aðeins 13 ára þegar myndin var tekin. Blaðamaður hafði samband við hana og aðspurð segist hún muna vel eftir myndinni. „Ætli þetta hafi ekki verið um 1957. Ég er Siglfirðingur og var að vinna í síld í þrjú sumur. Ég var þarna að borða nestið mitt og þá kom ljósmyndari og fór að mynda í gríð og erg. Ég var ekkert að stilla mér upp en einhver bak við mig endurtók í sífellu: Brostu! Brostu! Ég lét það ekkert trufla mig og hélt áfram að borða nestið.“

Erla Nanna segist ekki hafa hugsað um þessa mynd árum saman.

„Það var ekki fyrr en 2014 sem ég fór að velta þessari mynd fyrir mér og hvort hún hefði birst einhvers staðar. Ég vissi að ljósmyndarinn væri sænskur og fór að gúgla og fann myndina þannig. Ég komst að því að myndir þessara ljósmyndara eru á safni í Svíþjóð. Einhvern veginn hefur Páll Baldvin síðan fengið myndina og fyrir örfáum dögum var hringt í mig og mér boðið í útgáfuhófið. Ég fór þangað og mér var vel tekið.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×