Erlent

Sagt upp eftir sjón­varps­um­ræður um Sam­herja­málið

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Namibíumenn ganga til kosninga í dag.
Namibíumenn ganga til kosninga í dag. AP/Sonja Smith
Fréttamaður sem starfaði í lausamennsku fyrir namibísku fréttaveituna Nampa missti vinnuna um eftir að hann tók þátt í umræðum um Samherjamálið í spjallþætti á namibískri sjónvarpsstöð á sunnudaginn. Yfirmenn hans segja að þátttaka hans í þættinum hafi skaðað orðspor fréttaveitunnar.

Frá þessu er greint á vef Namibian en þar kemur fram að það hafi komið fréttamanninum, Vito Angula, á óvart að fá uppsagnarbréf eftir að hafa tekið þátt í umræðum um Samherjamálið í sjónvarpsþættinum. Hann sé reglulegur gestur í þáttum sjónvarpsstöðvarinnar One Africa.

Það sem virðist hafa farið fyrir brjóstið á yfirmönnum hans hjá Nampa eru ummæli hans um tengsl stjórnmálamanna við hákarlana svokölluðu í Samherjamálinu.

„Ég reyndi að vera málefnalegur og eitt af því sem ég sagði var að þetta væri spilling. Þetta liti út eins og hagsmunaárekstur miðað við nálægð þeirra við forsetann,“ er haft eftir Angula á vef Namibian.

Ósáttir við þátttöku í „mjög umdeildum“ umræðum

Í frétt Namibian er vitnað í uppsagnarbréf sem Angula fékk í hendurnar eftir þátttökuna í þættinum. Þar segir að brottrekstrarsökin sé sú að Angula hafi skaðað orðspor fréttaveitunnar og mögulega komið óorði á ritstjórnarstefnu fréttaveiturinnar með því að taka þátt í „mjög umdeildum“ umræðum í sjónvarpi um Samherjamálið.

Sjá einnig: Tannlæknir ógnar valdasetu forseta Namibíu í skugga spillingarmála og atvinnuleysis

Þannig hafi þátttaka hans verið án leyfis ritstjóra og framkvæmdastjóra fréttaveitunnar sem sé eitthvað sem ítarlega hafi verið rætt um þegar ráðningarsamningur Angula tók gildi. Þá hafi Angula verið ítrekað varaður við því að taka þátt í opinberum umræðum á borð við þær sem voru til tals í sjónvarpsþættinum.

Kosningar fara fram í Namibíu í dag.AP/Sonja Smith.
Í frétt Namibian segir að Angula sé í viðræðum við lögmann um að áfrýja brottrekstrinum. Hann setji spurningarmerki við hvað hafi leitt til brottrekstrar hans.

Forseta- og þingkosningar fara fram í Namibíu í dag. Búist er við spennandi forsetakosningum og líklegt er talið að mjótt verði á munum á milli Hage Geingob, forseti Namibíu og Panduleni Itula, sem býður sig fram sem óháður frambjóðandi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×