Yfirvöld í Namibíu leita nú þriggja manna í tengslum við rannsókn sína á spillingu, mútuþægni, peningaþvætti og skattsvik í landinu. Mennirnir tengjast allir Samherjaskjölunum og ásökunum um spillingu þar í landi.
The Namibian greinir frá því að handtökutilskipun hafi verið gefin út á hendur Sacky Shanghala, fyrrverandi dómsmálaráðherra, og þeirra James Hatuikulipi og Tamson Hatuikulipi, kallaður Fitty, sem báðir voru viðriðnir mál Samherja. Mennirnir hafa oft verið kallaðir „hákarlarnir“.
Sjá einnig: Þriðji „hákarlinn“ segir af sér vegna Samherjamálsins
„Hákarlarnir“ svokölluðu er hópur valdamanna í Namibíu sem sagður er hafa þegið mútur frá Samherja fyrir ódýran hrossamakrílskvóta. Hópinn mynda Fitty, Shanghala og James Hatukuilipi, frændi Fitty og fyrrverandi stjórnarformaður ríkisrekna sjávarútvegsfyrirtækisins Fishcor. James Hatuikulipi sagði nýlega af sér sem stjórnarformaður Fishcor í Namibíu en Tamson Hatuikulipi er tengdasonur Berharnd Esau, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra.
Bankareikningar Shanghala og Fitty voru nýlega frystir vegna rannsóknar á meintri mútuþægni þeirra í Samherjamálinu.
Yfirvöld telja Shanghala og James Hatuikulipi vera staðsetta í Cape Town í Suður-Afríku en í handtökutilskipuninni eru þeir sagðir vera grunaðir um spillingu.

