Erlent

Forseti Namibíu: „Hvaðan komu peningarnir? Frá Íslandi“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Hage Geingob, forseti Namibíu.
Hage Geingob, forseti Namibíu. EPA/NIC BOTHMA
Hage Geingob, forseti Namibíu, sneri vörn í sókn á stórum kosningafundi SWAPO-flokksins, í Samherjamálinu-svokallaða er hann sagði Íslendinga eiga sök í því máli, fremur en stjórnkerfi Namibíu.

Namibíski vefmiðillinn Namibian fjallaðu um kosningafundinn, sem var sá síðasti fyrir kosningarnar í Namibíu sem haldnar verða á þriðjudaginn í næstu viku. Á fundinum tilkynnti hann að hann hefi fyrirskipað starfandi sjávarútvegsráðherra Namibíu að gera úttekt á stjórn fiskveiða í landinu.

Þá gagnrýndi hann fjölmiðla í Namibía fyrir að hafa einblínt á þá sem sagðir eru hafa þegið mútur í Samherjamálinu. Hvatti hann Namibíu-búa og fjölmiðla þar í landi til að setja kastljósið á þá sem sagðir eru hafa mútað þeim sem eiga að hafa þegið mútur.

„Ísland er að ráðast á okkur. Í stað þess á að tala um þá sem spilla, hvaðan komu peningarnir? Frá Íslandi. En sökin er sett á hin „spilltu Afríkuríki“,“ sagði Geingob á fjölmennum kosningafundi en ummæli hans um Ísland má heyra á upphafsmínútum myndbandsins hér að neðan.

Geingob bætist því hóp þeirra sem gagnrýnt hafa þá sem sagt hafa rót vandans í Samherjamálinu vera veikt stjórnkerfi í Namibíu, líkt og haft var eftir Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra í breska fjölmiðlinum Guardian. Þar sagði hann að hið undirliggjandi vandamál í málinu væri veik og spillt ríkisstjórn.

Í fjölmiðlum í Namibíu er Geingob sagður hafa hvatt íslensk stjórnvöld til þess að rannsaka spillingu hér á landi, auk þess sem forsetinn setti spurningamerki við tímasetningu umfjöllunarinnar um starfsemi Samherja í Namibíu, svo skömmu fyrir kosningar þar í landi.

Í umfjöllun Namibia Economist um kosningarnar í Namibíu segir að ólíklegt sé að Samherjamálið muni hafa mikil áhrif á fylgi SWAPO-flokksins, sem hefur stýrt gangi máli þar í landi frá því að Namibía öðlaðist sjálfstæði árið 1990.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×