Áslaug Arna Sigurbjörnsson dómsmálaráðherra mun fjalla um málefni lögreglu á blaðamannafundi klukkan 13 í dag í Ráðherrabústaðnum. Í tilkynningu frá dómsmálaráðuneytinu kemur ekkert nánar fram um efni fundarins.
Ráðherra muni fara yfir fundarefnið og í framhaldi gefa kost á viðtölum við fjölmiðla.
Bein útsending verður frá fundinum á Vísi.
Frá miðjum september hefur dómsmálaráðherra unnið að skipulagsbreytingum á löggæslu sem snúa að fækkun lögregluembætta úr níu í sex. Hugmyndir ráðherra er að fækka í yfirstjórn, sameina embætti ríkislögreglustjóra, lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og lögreglunnar á Suðurnesjum en jafnframt að stofna sérstakt embætti landamæra- og öryggislögreglu á Keflavíkurflugvelli.
Lögreglustjórar allra lögregluembætta komu til fundar við dómsmálaráðherra í síðustu viku þar sem tillögur ráðherrans voru kynntar.
Mikil ólga hefur verið um margra mánaða skeið innan lögreglunnar og upp úr sauð eftir að Haraldur Johannessen, ríkislögreglustóri steig fram í viðtali í Morgunblaðinu þar sem hann sagði gagnrýni á embætti sitt vera hluta af markvissri rógsherferð.
Síðan þá hefur ráðherra unnið að breytingum.
Verði sameiningartillögum dómsmálaráðherra hrint í framkvæmd gæti það haft áhrif á störf og stöðu Haraldar Johannessen, ríkislögreglustóra, Ólafs Helga Kjartanssonar, lögreglustjóra á Suðurnesjum og Sigríðar Bjarkar Guðjónsdóttur, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu.
