Eins og greint var frá í morgun fellur skólahald í 7. til 10. bekk niður á Nesinu í dag þar sem kennurum og stjórnendum finnst pólitískir fulltrúar í bænum hafa vegið freklega að sér.
Harma þau þann dóm sem þau segja bæjarfulltrúa hafa fellt með bókunum á síðasta bæjarstjórnarfundi. Annars vegar bað meirihlutinn nýútskrifaða 10. bekkinga og foreldra þeirra afsökunar og hins vegar sagði í bókun Nestlistans/Viðreisnar að skólinn fengi falleinkunn fyrir innleiðingu á námsmati.
Foreldrar útskriftarnemenda við grunnskólann kvörtuðu til skólans, bæjaryfirvalda og menntamálaráðuneytisins vegna óánægju með námsmat í grunnskólanum í vor. Í kjölfarið var fenginn utanaðkomandi skólastjóri enginn til að vinna greinagerð um námsmatið. Kom þar fram að betur mætti upplýsa foreldra og nemendur um námsmat.
Eins var vakin athygli á að tryggja þurfi stöðugleika, svo að kennarar í sömu námsgreinum noti sömu viðmið. Ljóst var, að mati fræðslustjóra, að ýmsu væri ábótavant.
Margir kvartað yfir að erfitt sé að skilja nýja námsmatskvarða
Segir Guðmundur að kennarar skólans hafi verið að vinna í þeim ábendingum sem komu fram í greinargerðinni og vinna í því að þróa námsmatið.„Þetta námsmat er búið að vera í sífelldri þróun síðan það kom út árið 2013 og mörgum finnst það óskýrt. Kennarar, nemendur og foreldrar hafa kvartað yfir því að eiga erfitt með að skilja stundum hvernig þessir nýju námsmatskvarðar eru reiknaðir út,“ segir Guðmundur og bendir á að víða um land hafi verið kvartað yfir kvörðunum.
„En vissir fulltrúar stökkva á þann vagn að gefa skólanum í heild sinni og kennurum falleinkunn og láta orð falla eins og að kennurum skólans sé einfaldlega ekki annt um nám og þroska barnanna sem á alls ekki við rök að styðjast.“
Guðmundur segir að með þessari umræðu sé verið að grafa undan trausti á skólanum.
Það séu vissulega ábendingar um hvað betur megi fara í fyrrnefndri greinargerð en hún sé ekki falleinkunn fyrir skólann.
„Það er ekki svo að kennarar í Grunnskóla Seltjarnarness séu ekki hæfir til að kenna eða meta nemendur og umræðan er komin svolítið þangað. Við söknum þess líka að bærinn stigi líka fram og lýsi yfir trausti við skólann því þetta hefur líka skapað mikla óvissu fyrir foreldra og nemendur. Það er búið að aflýsa skólastarfi í dag og mikil óvissa og skiptir máli að stíga fram og standa með skólanum.“
Ekkert gamanmál að aflýsa skólastarfi
Aðspurður hvort aðgerðir kennara og stjórnenda í dag, að aflýsa skólastarfi, bitni ekki bara á þeim sem síst skyldi, það er nemendum segir Guðmundur:„Jú, þetta mál hefur bitnað á nemendum skólans og þess vegna einmitt mikilvægt að skapa aftur ró og traust á milli kennara, stjórnenda, að það ríki traust á þeim því það að þau treysti sér ekki til að taka við nemendum lýsir kannski þeim tilfinningum sem eru að eiga sér stað uppi í skóla og hvernig þetta blasir við kennurum. Skólastarfi er ekki aflýst sem gamanmáli þannig að þetta er alvörumál og bitnar á nemendum núna.“
Þá vill Guðmundur ekki setjast í dómarasæti hvort þetta sé réttlætanleg aðgerð af hálfu kennara og stjórnenda.
„Þetta byggir á upplifun kennarana, að þau treysti sér hreinlega ekki til að halda úti hefðbundnu skólastarfi í dag,“ segir Guðmundur og bætir við að hann standið við bakið á kennurunum. Þá vonar hann að það skapist sátt og að traust verði aftur byggt upp svo halda megi upp öflugu skólastarfi á Nesinu.
Fulltrúi Neslista/Viðreisnar ber fullt traust til skólans
Karl Pétur Jónsson, fulltrúi Neslista/Viðreisnar, í bæjarstjórn sagði við Vísi fyrr í dag að hann beri fullt traust til Grunnskóla Seltjarnarnes. Neslistinn standi engu að síður við þá yfirlýsingu sína að grunnskólinn fái falleinkunn við innleiðingu námsmatsins.Fólk sé hins vegar ekki dæmt af mistökum heldur hvernig það lærir af mistökum. Hann beri fullt traust til grunnskólans og þrjú börn hans sem gangi í skólann sé mark um traust.
Hann lýsir viðbrögðum skólans í dag, að fella niður kennslu, sem ofsafengnum. Skólinn hafi ekki bara fengið gagnrýni frá Neslistanum/Viðreisn heldur einnig foreldrafélaginu og meirihlutanum.