„Við vorum kannski full brattir í fyrri yfirlýsingum,“ segir Jón Kristinn um 1. nóvember-áformin. Uppsetning Ísflix sé meira og minna unnin í sjálfboðavinnu og hafi tekið lengri tíma en búist hafði verið við. Til að mynda hafi forritun smáforritsins reynst flóknari en áætlanir gerðu ráð fyrir, auk þess sem flutningur eldra efnis yfir á stafrænt form hafi verið tímafrekt.
Sjá einnig: Ísflix Ingva Hrafns boðar samkeppni við risana
Eins og fram kom í fyrri frétt Vísis af Ísflix verður íslensk dagskrárgerð í fyrirrúmi á efnisveitunni. Frá því að púlsinn var síðast tekinn á undirbúningnum segir Jón Kristinn að mikið efni hafi bæst í sarpinn. Til að mynda hafi Ísflix tryggt sér þætti Sigurgeirs Orra Sigurgeirssonar um Loftleiðir, Íslandssöguþáttaröð auk þess sem von er á heimildarþáttaröðinni Skandall sem fjallar um „nýjar hliðar Geirfinnsmálsins“ - að ógleymdum þáttunum sem Jón Kristinn, Ingvi Hrafn Jónsson og fleiri Ísflix-menn „eiga hjá Hringbraut. Eins og allir þættirnir mínir með Gunnari Dal,“ segir Jón Kristinn um leið og hann hrósar Hringbrautarfólki fyrir að hafa tekið vel í umleitanir Ísflix.
Moggaeldhúsið óhentugt
Þar að auki mun Ísflix ráðast í eigin dagskrárgerð. Til þess að hún verði að veruleika þurfi Ísflix þó stærra húsnæði en þeim hefur boðist í Hádegismóum og stendur húsnæðisleitin nú yfir að sögn Jóns Kristins.
Draumurinn sé að finna húsnæði með mikilli lofthæð fyrir allan tækjabúnaðinn auk þess sem það verður að rúma stærðarinnar myndver sem ætlunin er að hluta í þrennt.
Aðspurður um hvernig Ísflix hyggst fjármagna leigu á húsnæði og framleiðslu efnis, í ljósi þess að efnisveitan verður öllum aðgengileg þeim að kostnaðarlausu, segir Jón Kristinn að fjármunirnir séu nær alfarið að koma úr hans eigin vasa. Hugmyndin sé hins vegar að fara inn á auglýsingamarkað á seinni stigum, til að tryggja að notendur þurfi aldrei að greiða fyrir Ísflix.
Jón Kristinn er ragur við að nefna hvenær borgaralegir hámgláparar mega búast við því að Ísflix líti dagsins ljós - „ég er búinn að brenna mig á því einu sinni,“ segir hann og hlær. Draumurinn sé þó að geta kynnt Ísflix til leiks á eins árs afmæli Hrafnaþings, sem fagnað verður þriðja fimmtudaginn í janúar. Jón Kristinn telur þó ólíklegt að það takist, líklegra sé að hægt verði að fara í loftið fyrir næstu páska.