Erlent

Saxast á yfirburði SWAPO í skugga Samherjamálsins

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Hage Geingob, forseti Namibíu, mætir á kjörstað á miðvikudag.
Hage Geingob, forseti Namibíu, mætir á kjörstað á miðvikudag. Vísir/AP
Namibíski stjórnmálaflokkurinn SWAPO, sem haldið hefur um stjórnartaumana í landinu síðan það öðlaðist sjálfstæði árið 1990, vann kosningarnar sem haldnar voru á miðvikudag í Namibíu. Flokkurinn hlaut 65,5 prósent atkvæða, sem þó er einn lakasti árangur hans frá upphafi.

Þá var forsetaframbjóðandi flokksins, Hage Geingob, endurkjörinn forseti með 56,3 prósent atkvæða. Stuðningur við Geingob hefur þannig dalað töluvert frá síðustu kosningum árið 2014 þegar hann hlaut 87 prósent atkvæða.

Óháði frambjóðandinn Panduleni Itula var næstur í kosningunum með 29,4 prósent atkvæði.

SWAPO náði 63 mönnum inn á þing, sem skipað er alls 96 þingmönnum. Flokkurinn er þannig fjórtán þingmönnum færri miðað við niðurstöður síðustu kosninga – og missti um leið mikilvægan meirihluta á þinginu sem gerði honum kleift að gera breytingar á stjórnarskrá landsins, þrátt fyrir andstöðu minnihlutans, að því er segir í frétt namibíska dagblaðsins The Namibian.

Þá hlaut næststærsti flokkurinn, Lýðræðishreyfing fólksins, eða PDM, 16,6 prósent atkvæða og sextán menn kjörna. Hreyfing landlaustra, LPM, fékk 4,9 prósent atkvæða og fjóra menn á þing.

Namibíumenn gengu til kosninga í skugga Samherjamálsins. Embættismenn og aðrir háttsettir í Namibíu eru sakaðir um að hafa þegið mútur frá Samherja í skiptum fyrir ódýran fiskveiðikvóta. Á meðal þeirra sem sakaðir eru um mútuþægni eru SWAPO-liðarnir Bernhardt Esau, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, og Shacky Shanghala, fyrrverandi dómsmálaráðherra, sem sögðu báðir af sér í kjölfar Samherjamálsins.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×