Erlent

Meðalhitinn yfir fjörutíu stigum

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar

Aldrei hefur verið heitara í Ástralíu en í gær. Meðalhiti í landinu fór upp í 40,9 stig og hitinn er ekki á förum strax. Þessi meðalhiti er núll komma sex stigum hærri en fyrra met, sem var sett í janúar árið 2013. Börn og fullorðnir leituðu því lausna í dag og í gær til þess að kæla sig örlítið niður.

Sundlaugagarðar voru fjölsóttir, gosbrunnar urðu að baðstöðum og fólk flykktist í sjóinn sem aldrei fyrr. En þótt hitinn og sjóböðin hljómi eins og eintóm skemmtun er raunin önnur.

Gróðureldar loga enn víða í landinu. Í upphafi vikunnar sagði slökkvilið frá því að reynt væri að ráða niðurlögum um hundrað elda í Nýja Suður-Wales. Þá hefur steikjandi hitinn einnig víðtæk áhrif á dýralíf og gæti vitaskuld reynst skaðlegur mannfólki. 

Ekki er búist við því að morgundagurinn verði mikið svalari en veðurhorfur fara batnandi frá og með föstudeginum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×