Um árabil var rifrildi um kirkjuheimsóknir skólabarna ómissandi partur af hverri aðventu. Ár eftir ár bárust Siðmennt fjölmargar tilkynningar og póstar frá foreldrum í desember, sem voru ósáttir við ríkjandi fyrirkomulag og varð þetta um tíma eitt af stærstu baráttumálum félagsins. Trú- og lífsskoðanir eru einkamál hvers og eins og leik- og grunnskólar sem hið opinbera rekur eða styrkir eiga að vera griðarstaðir barna þar sem þau eru laus undan einhliða áróðri trú- eða lífsskoðunarfélaga.
Foreldrar voru eðli málsins samkvæmt ekki sáttir við að börnin þeirra þyrftu að sitja undir trúarinnrætingu á skólatíma, eða gefa upp lífsskoðun sína og þurfa svo að vera teknir út fyrir hópinn í kjölfarið. Ástandið var í alla staði algjörlega óboðlegt, og ég þekki það vel af eigin raun að það getur verið bæði erfitt og lýjandi að vera foreldrið sem tekur slaginn um kirkjuheimsóknir.
Árið 2013 rofaði loks til í þessum málaflokki þegar Mennta- og menningarmálaráðuneytið gaf út meginviðmið um samskipti skóla og trúfélaga. Í kjölfarið hefur orðið mikil bragabót í þessum málaflokki, en betur má ef duga skal. Það eru tvær greinar í viðmiðum ráðuneytisins sem mér þykja sérstaklega mikilvægar, og miðað við þau erindi sem enn berast Siðmennt, þá eru þessi viðmið iðulega brotin:
- Mikilvægt er að fræðsla þessi og heimsóknir sé gerð á vegum skólans og í þeim tilgangi að fræða nemendur um tiltekin trúarbrögð, inntak þeirra, helgidóma og siði en feli ekki í sér innrætingu tiltekinna trúarskoðana eða tilbeiðslu.
- Eftir fremsta megni skal forðast að nemendur og foreldrar séu settir í þá aðstöðu að þurfa að gera grein fyrir lífsskoðunum sínum.
Sem foreldri tveggja barna á grunnskólaaldri, og sem framkvæmdastjóri Siðmenntar, veit ég um alltof mörg dæmi þar sem foreldrar eru settir í óþægilegar aðstæður sem upp koma í tengslum við þessar heimsóknir og að oftar en ekki stýra prestarnir uppleggi þeirra, en ekki skólarnir eða kennarar. Í mínum huga er ákveðin tímaskekkja að hin svokallaða þjóðkirkja hafi jafn sterk ítök í helgihaldi skóla landsins og raun ber vitni, nú þegar rúmlega þriðjungur þjóðarinnar stendur utan kirkjunnar.
Við höfum náð langt í þessum málaflokki með samstilltu átaki og málefnalegri umræðu. Flest getum við vonandi verið sammála um það að kirkjuheimsóknir skóla um jól eigi ekki að innihalda trúboð né innrætingu. Mér þykir það bæði eðlileg og sanngjörn krafa að við göngum alla leið og tryggjum það að skólar landsins séu sannarlega griðarstaðir fyrir alla, óháð lífsskoðunum, og engin þurfi að sitja undir trúarinnrætingu á skólatíma eða gera grein fyrir lífsskoðun sinni nema einstaklingurinn sjálfur kjósi.
Að þessu sögðu óska ég ykkur öllum gleðilegra jóla!
Höfundur er framkvæmdstjóri Siðmenntar, félags siðrænna húmanista á Íslandi.