Bandaríkin gerðu í dag fyrstu loftárásina gegn Talibönum í Afganistan í ellefu daga. Fylkingarnar skrifuðu nýverið undir friðarsamkomulag en loftárásin í dag er sögð hafa verið varnarlegs eðlis. Talsmaður herafla Bandaríkjanna segir árásina hafa beinst gegn Talibönum sem voru að ráðast á afganska hermenn og kalla Bandaríkin eftir því að Talibanar hætti árásum sínum alfarið.
Sonny Leggett, talsmaðurinn, segir Talibana hafa gert 43 árásir á afganska hermenn á þriðjudaginn og allar hafi þær átt sér stað í Helmand-héraði. Innanríkisráðuneyti Afganistan segir fjóra borgara og ellefu hermenn hafa fallið í árásum Talibana undanfarinn sólarhring.
Þá hafi minnst sautján Talibanar verið felldir.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, staðfesti í gær að hann hefði talað við talað nýverið við leiðtoga Talibana í síma og er hann líklegast fyrsti forseti Bandaríkjanna til að gera það.
Bandaríkin og Talibanar skrifuðu undir samkomulag þann 29. febrúar og felur það í sér brottför bandarískra hermanna frá landinu. Talibanar segja viðræður á milli þeirra og stjórnvalda ekki geta hafist fyrr en það hafi verið gert. Yfirvöld í Kabúl hafa þó alfarið neitað því að sleppa vígamönnunum.
Talibanar hafa ekki lýst yfir ábyrgð á árásunum í gær og í dag en talsmaður þeirra sagði blaðamanni AP fréttaveitunnar að svokölluð friðarvika, sem samþykkt var í síðasta mánuði, væri búin.