Körfubolti

Staðfesta brottrekstur Inga: Bauðst annað starf sem hann hafnaði

Anton Ingi Leifsson skrifar
Ingi Þór var fyrst og síðast ánægður með dugnað sinna manna.
Ingi Þór var fyrst og síðast ánægður með dugnað sinna manna. vísir/bára

KR er búið að reka Inga Þór Steinþórsson, þjálfara liðsins í Dominos-deild karla. Þetta staðfestir Böðvar Guðjónsson, formaður körfuknattleiksdeildar KR, í yfirlýsingu sem var send fjölmiðlum fyrr í dag.

Ingi tók við liðinu fyrir tveimur árum. Hann varð Íslandsmeistari með liðið á sínu fyrsta ári en tímabil númer tvö var, eins og kunnugt er, blásið af vegna kórónuveirunnar.

Í yfirlýsingunni segir að Inga Þór hafi verið boðið annan starf innan félagsins en því hafi hann afþakkað.

„Körfuknattleiksdeild KR hefur sagt Inga Þór Steinþórssyni upp störfum sem þjálfara meistaraflokks karla. Félagið bauð Inga Þór starf yfirmanns körfuboltamála hjá KR, en Ingi Þór starfaði einnig sem yfirþjálfari yngriflokka KR,“ segir í yfirlýsingunni.

„Ingi Þór hefur afþakkað starfið. Körfuknattleiksdeild KR þakkar Inga Þór fyrir samstarfið sem þjálfari liðsins undanfarin tvö ár og óskar honum góðs gengis í þeim verkefnum sem hann tekur sér fyrir hendur.“

Vísir greindi frá því fyrr í vikunni að orðrómur væri um að búið væri að segja Inga upp störfum og Darri Freyr Atlason, uppalinn KR-ingur sem hefur stýrt liði Vals í Dominos-deild kvenna, sé að taka við starfinu.

Ekki hefur verið staðfest hver tekur við keflinu hjá Vesturbæjarstórveldinu sem hefur orðið Íslandsmeistari sex ár í röð.

Uppfært 15.12: Böðvar Guðjónsson, formaður kkd. KR, gaf ekki kost á sér í viðtal en rætt verður við Inga Þór á Vísi síðar í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×