Benedikt Guðmundsson er hættur sem þjálfari kvennaliðs KR í körfubolta en hann greindi frá þessu sjálfur á Facebook.
Í síðustu viku var Inga Þór Steinþórssyni, þjálfara karlaliðs KR, óvænt sagt upp og nú er ljóst að einnig verður skipt um mann í brúnni hjá kvennaliðinu. Ekki er ljóst hverjir eftirmenn þeirra verða en Darri Freyr Atlason, fyrrverandi þjálfari meistaraliðs Vals í kvennaflokki, hefur verið sagður eiga að taka við karlaliði KR.
„Því miður er þessum kafla lokið núna,“ skrifar Benedikt á Facebook þar sem hann kveður félagið sem á svo stóran þátt í hans uppeldi, eins og landsliðsþjálfarinn orðar það sjálfur. Benedikt tók við kvennalandsliði Íslands fyrir rúmu ári síðan en þessi reynslumikli þjálfari hefur stýrt kvennaliði KR samfleytt síðustu þrjú ár.