Borgaryfirvöld í Wuhan, þar sem kórónuveiran var fyrst staðfest, ætla að ráðast í gríðarlega umfangsmikla rannsókn á útbreiðslu veirunnar þar í borg.
Til stendur að skima hvern einasta borgarbúa fyrir veirunni, en í Wuhan búa ellefu milljónir manna. Átakið á að standa í tíu daga en ekki hefur verið gefið út hvenær ráðast á í framkvæmdina.
Sex ný tilfelli kórónuveirunnar greindust í borginni um helgina en áður hafði veiran ekkert látið á sér kræla frá því í byrjun aprílmánaðar.
Wuhan var nær algjörlega lokað í ellefu vikur en byrjað var að slaka á takmörkunum þar strax 8. apríl.