Knattspyrnudeild Fylkis hefur samið við hina reynslumiklu Vesnu Elísu Smiljkovic sem kemur í Árbæinn eftir að hafa síðast verið leikmaður Íslandsmeistara Vals.
Vesna hefur aðeins leikið einn deildarleik með Val á síðustu tveimur leiktíðum en hún eignaðist barn árið 2018. Hún hafði áður leikið 13 tímabil á Íslandi, með Val, ÍBV, Þór/KA og Keflavík en hún kom til Keflvíkinga árið 2005.
Vesna, sem hefur skorað 94 mörk í 236 deildar- og bikarleikjum á Íslandi, er orðin 37 ára gömul og bætir mikilli reynslu við Fylkisliðið sem hafnaði í 6. sæti Pepsi Max-deildarinnar í fyrra. Hún er til að mynda rúmlega tveimur áratugum eldri en aðalmarkvörður Fylkis, landsliðskonan Cecilía Rán Rúnarsdóttir.
Fylkir tekur á móti Selfossi í 1. umferð Pepsi Max-deildarinnar í sumar laugardaginn 13. júní.