Golf

Svona gæti golftímabilið litið út eftir allar breytingarnar vegna COVID-19

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tiger Woods gæti mögulega þurft að verja Masters-titilinn sinn á Augusta National golfvellinum í nóvember.
Tiger Woods gæti mögulega þurft að verja Masters-titilinn sinn á Augusta National golfvellinum í nóvember. Getty/Andrew Redington

Golftímabilið verður gjörbreytt eftir allar frestanirnar vegna kórónuveirunnar og nú berast fréttir af því að golfheimurinn sé mögulega búinn að raða tímabilinu upp á nýtt.

Masters-mótinu var frestað á dögunum en það átti að vera fyrsta risamót ársins nú í aprílmánuði. PGA-meistaramótinu í maí hefur einnig verið frestað.

Það er ekki búið að fresta opna breska meistaramótinu en þykir líklegt að því seinki einnig en það á að fara fram í júlí. Á undan á að fara fram opna bandaríska meistaramótið í júní og því hefur ekki verið frestað ennþá.

Staða mála í Bandaríkjunum og Evrópu eru samt þannig og útbreiðslan enn það hröð að allt bendir til þess að golftímabilið færist fram á haust og inn á veturinn.

Samkvæmt fréttum Golfweek þá verður væntanlega boðið upp á mikla golfveislu í haust og vetur.

Eftir risamótin fjögur bíður nefnilega sjálfur Ryder-bikarinn sem átti að fara fram í lok september.

Nú lítur út fyrir að þrjú eða fjögur risamót og Ryder-bikarinn fari nú fram á fimmtán vikum seinni hluta sumars og í haust.

Líkur er nú á því að Mastersmótið endi jafnvel í nóvembermánuði og að risamótatímabilið gæti byrjað á PGA-meistaramótinu í ágúst og svo færi opna breska mótið fram í september. Eftir það þyrfti síðan að finna stað fyrir opna bandaríska mótið í kringum Ryder-bikarinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×