Forstjóri Icelandair segir áhyggjuefni að ekki verði lengra komist í viðræðum við Flugfreyjufélag Íslands. Í yfirlýsingu frá flugfélaginu kemur fram að ekki hafi verið boðað til frekari funda og að ekki sé útlit fyrir að svo verði eftir að fundi var slitið fyrir hádegi í dag.
Samningafundi Flugfreyjufélags Íslands og Icelandair lauk án niðurstöðu í hádeginu í dag. Guðlaug Líney Jóhannsdóttir, formaður Flugfreyjufélagsins, sagði þá að samninganefnd Icelandair hefði ekki séð sér fært að halda viðræðunum áfram á grundvelli tilboðs flugfreyja.
Í yfirlýsingu sem Icelandair sendi frá sér í kvöld segir að niðurstaða fundarins hafi verið sú að lengra yrði ekki komist. Haft er eftir Boga Nils Bogasyni, forstjóra, að það sé áhyggjuefni. Samningur sem Icelandair hafi boðið flugfreyjum og flugþjónum hefði hvort tveggja tryggt samkeppnishæfni fyrirtækisins til lengri tíma og starfsmönnum góð kjör og starfsumhverfi.
„Markmið Icelandair er að tryggja starfsmönnum sínum góð kjör sem eru samkeppnishæf við það sem sambærileg flugfélög bjóða, svo sem SAS og Finnair. Þau félög hafa á liðnum áratug gert veigamiklar breytingar á kjarasamningum í þeim tilgangi að auka samkeppnishæfni þeirra á alþjóðlegum flugmarkaði,“ segir í yfirlýsingunni.
Icelandair hefur reynt að ná samningum við flugstéttir til þess að lækka launakostnað fyrir hlutafjárútboð þar sem stefnt er að því að afla allt að 29 milljarða króna til að rétta af rekstur þess sem á undir högg að sækja vegna kórónuveiruheimsfaraldursins. Flugvirkjar sömdu um kjaraskerðingu á sunnudag en ekki hafa náðst samningar við flugmenn eða flugfreyjur.