Enski boltinn

Sakar Walker um „ógeðslega hræsni“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Talið er að Manchester City muni sekta Kyle Walker um 250.000 pund.
Talið er að Manchester City muni sekta Kyle Walker um 250.000 pund. vísir/epa

Sjónvarpsmaðurinn Piers Morgan lét Kyle Walker, leikmann Manchester City, heyra það eftir að hann bauð tveimur fylgdarkonum í gleðskap á heimili sínu í síðustu viku.

Walker braut þar með reglur um samkomubann sem eru í gildi á Englandi. Fylgdarkonurnar komu á heimili Walkers á þriðjudaginn í síðustu viku og fóru daginn eftir. Þann sama dag birti Walker myndband þar sem hann hvatti fólk til hlýða fyrirmælum yfirvalda.

„Fótboltamenn birta alls konar færslur þar sem þeir hvetja almenning til að halda sig innandyra, ekki gera neitt heimskulegt og vera góðir samborgarar,“ sagði Morgan.

„Síðan fær Walker tvær fylgdarkonur heim til sín. Hvað gæti verið heimskulegra en það? Þetta er ógeðsleg hræsni, ótrúlega eigingjarnt og vitlaust.“

Walker hefur beðið afsökunar á framferði sínu og segist sjá eftir því. Búist er við að City sekti hann um háa fjárhæð.

Walker er ekki eini fótboltamaðurinn í ensku úrvalsdeildinni sem Morgan hefur húðskammað. Sjónvarpsmaðurinn umdeildi lét Jack Grealish, fyrirliða Aston Villa, einnig heyra það eftir að hann keyrði á tvo kyrrstæða bíla eftir að hafa komið heim úr partíi þar sem um 50 manns voru.


Tengdar fréttir

Fékk fylgdarkonur í partý í miðjum faraldri

Kyle Walker, leikmaður Manchester City, hefur beðist afsökunar á því að hafa boðið tveimur fylgdarkonum í partý í síðustu viku þvert á reglur um samkomubann vegna kórónuveirufaraldursins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×