Enski boltinn

United hefur áhuga á manni sem fæddist í Liverpool og spilaði með Man. City

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rabbi Matondo er hér umkringdur Bæjurum í leik Schalke 04 og Bayern München í þýska bikarnum.
Rabbi Matondo er hér umkringdur Bæjurum í leik Schalke 04 og Bayern München í þýska bikarnum. EPA-EFE/DAVID HECKER CONDITIONS

Manchester United þarf væntanlega að borga mikinn pening ætli félaginu að takast að kaupa Jadon Sancho af Borussia Dortmund. Það er því betra að eiga aðra kosti sé verðmiðinn á endanum of hár.

Leikmaðurinn sem Manchester Evening News segir United hafi áhuga á í staðinn er vængmaður að nafni Rabbi Matondo. Rabbi Matondo er velskur landsliðsmaður en hann er fæddur í Liverpool og var í þrjú ár hjá Manchester City.

Rabbi Matondo er 19 ára gamall og hefur spilað með Schalke 04 frá því í fyrra. Hann er einn af ungu leikmönnunum sem yfirgáfu Manchester City til að fá tækifæri til að spila.

Manchester United mistókst að kaupa Sancho í fyrra og ákváðu þá að kaupa Daniel James frá Swansea City í staðinn. United fékk hann á fimmtán milljónir punda.

Heimildarmenn Manchester Evening News segja að Manchester United líti á Matondo með sömu augum og þeir gerðu Daniel James síðasta sumar. Daniel James átti síðan ágætis fyrsta tímabil með Manchester United liðinu.

Það hjálpa vissulega að Manchester United goðsögnin Ryan Giggs þekkir Rabbi Matondo orðið vel eftir að hafa valið hann í velska landsliðið og gefið honum fjóra landsleiki.

Giggs á víst að hafa mælt með því við Ole Gunnar Solskjær að Manchester United nái í þennan efnilega leikmann frá Schalke.

Rabbi Matondo skoraði 1 mark í 12 deildarleikjum með Schalke 04 á þessu tímabili sem var hans fyrsta hjá félaginu. Jadon Sancho var hins vegar með 14 mörk og 16 stoðsendingar í 23 deildarleikjum með Borussia Dortmund.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×