Raygun, eins og hún er kölluð á breikdansgólfinu, tilkynnti þetta í morgunþætti Jimmy og Nath í Ástralíu í gær. BBC segir frá.
Raygun var ein af stjörnum Ólympíuleikanna í París þrátt fyrir að hafa endað í síðasta sæti í sinni grein.
Keppt var í breikdansi í fyrsta sinn á Ólympíuleikunum og með hreyfingum sínum þá skar Raygun sig algjörlega út úr hópnum.
Úðarinn og Kengúruhoppið
Hún bauð upp á danshreyfingar sem fengu nöfn eins og Úðarinn og Kengúruhoppið.
Sérstök tilþrif hennar og óvenjulegur breikdans fór á mikið flug á samfélagsmiðlum og eftir leikana vissu miklu fleiri hver Raygun var heldur en þær konur sem unnu til verðlauna á leikunum.
Sporin, sem hún bauð upp í París, hafa verið endalaus uppspretta gríns á netinu og þótti sumum nóg um.
Raygun, sem er 37 ára ára fyrirlesari í háskóla, fór hins vegar illa út úr allri athyglinni sem hún fékk því henni fylgdi mikið og neikvætt áreiti.
Sökuð um svindl
Verst var þó þegar netverjar fóru að saka hana um að svindla sér inn á Ólympíuleikanna og hófu meðal annars undirskriftasöfnun gegn henni þar sem heimtað var að hún bæðist afsökunar.
Gunn ætlaði að halda áfram að keppa eftir Ólympíuleikanna en breytti um skoðun þar sem allt þetta ástand tók það mikið á hana. Hún fékk mikið af ofbeldisfullum skilaboðum og það breytti litlu þótt að meðlimir áströlsku Ólympíunefndarinnar hafi ítrekað komið henni til varnar.
„Ég hafði enga stjórn á því hvernig fólk sá mig eða taldi að ég væri,“ sagði Rachael Gunn í útvarpsþætti Jimmy og Nath á 2DayFM. Hún vildi ekki hætta en verður að gera það vegna utanaðkomandi ástæðna.
Dansar núna bara inn í stofu
„Ég ætlaði að keppa áfram, það var pottþétt, en það er allt of erfitt fyrir mig að gera það núna,“ sagði Gunn.
„Það mun fylgja því allt of mikil naflaskoðun, fólk mun mynda það og setja það síðan á netið,“ sagði Gunn.
„Það er svo gaman að dansa og það fær þig til að líða vel. Mér finnst líka að fólki eigi ekki að líða illa með það hvernig það dansar. Ég held áfram að dansa fyrir mig og mun breikdansa. Hér eftir verður það bara í stofunni heima með mínum maka,“ sagði Gunn.