Erlent

Bola fimm borgar­stjórum til við­bótar úr em­bætti

Atli Ísleifsson skrifar
Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti.
Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti. AP

Tyrknesk yfirvöld handtóku í morgun fjóra borgarstjóra í borgum þar sem Kúrdar eru í meirihluta í héruðum í austur- og suðausturhluta landsins.

Aðgerðirnar eru liður í aðgerðum Tyrklandsstjórnar gegn Lýðræðislega þjóðarflokknum (HDP) sem hún sakar um að tengjast uppreisnarsveitum Kúrda, sem tyrknesk stjórnvöld skilgreina sem hryðjuverkasamtök.

AP segir borgarstjórana hafa verið handtekna á heimilum sínum, þeim bolað úr embætti borgarstjóra og skipt út fyrir fulltrúa sem skipaðir eru af stjórnvöldum. Þá á fimmta borgarstjóranum einnig að hafa verið bolað úr embætti en sá á ekki að hafa verið handtekinn.

HDP hefur fordæmt aðgerðir Tyrklandsstjórnar „gegn lýðræðislega kjörnum borgarstjórum“ og lýsa þeim sem „valdaráni“. Verið sé að kasta lýðræðinu fyrir roða og sniðganga vilja fólksins.

Borgarstjórarnir sem um ræðir voru kjörnir í sveitarstjórnarkosningum í borgunum Igdir, Siirt, Baykan, Kurtalan og Altinova á síðasta ári.

HDP segir að ríkisstjórn Tyrklands hafi nú skipað 45 borgarstjóra til bráðabirgða í þeim 65 sveitarfélögum þar sem HDP vann sigur í sveitarstjórnarkosningunum í mars 2019. Alls hafi 21 borgarstjóri verið handtekinn og ákærður fyrir brot gegn hryðjuverkalöggjöfinni í landinu.

Mannréttindasamtökin Human Rights Watch hafa gagnrýnt aðgerðir Tyrklandsstjórnar og telja að verið sé að brjóta á réttindum kjósenda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×