Innlent

Efling semur við ríkið

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá undirritun samningsins.
Frá undirritun samningsins. Vísir/Efling

Efling og hið opinbera hafa skrifað undir kjarasamninga. Það mun þó engin áhrif hafa á verkföll sem eru í gangi og eru fyrirhuguð. Nýju kjarasamningarnir ná til um 540 félagsmanna Eflingar starfsmanna og eru það að mestu konur sem vinna við þrif, þvott og í mötuneytum Landspítalans.

Í tilkynningu frá Eflingu segir að samningurinn feli í sér taxtahækkanir að fyrirmynd Lífskjarasamningsins og styttingu vinnuvikunnar og tekur hækkunin gildi í byrjun næsta árs.

Samningnum fylgja einnig viðbótaraðgerðir sem ætlað er að styrkja hugmyndafræðina um sérstakar hækkanir láglaunafólks og koma til móts við kröfuna um leiðréttingu á kjörum kvennastétta. Gildistími samningsins er til 31. mars 2023.

„Viðræður okkar við ríkið hafa gengið vel nú á lokametrunum og sýna skýrt hverju er hægt að áorka þegar fólk eru lausnamiðað og hlustar hvert á annað,“ sagði Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar. „Ég mun mæla með þessum samningi við mína félagsmenn enda eru í honum mikilvæg skref í átt að því sem Efling hefur sóst eftir í viðræðum við ríki og sveitarfélög. Ég er bjartsýn á hann verði samþykktur af félagsmönnum okkar á Landspítalanum og öðrum ríkisstofnunum.“

Samningurinn verður kynntur félagsmönnum Eflingar og boðað verður til atkvæðagreiðslu um hann eins fljótt og auðið er.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×