Íslenski boltinn

Pepsi Max-spáin 2020: Flýgur Hrafninn í Kópavoginum?

Íþróttadeild Vísis og Stöðvar 2 Sports spáir Breiðabliki 3. sæti Pepsi Max-deildarinnar í sumar.

Ingvi Þór Sæmundsson, Óskar Ófeigur Jónsson og Sindri Sverrisson skrifa
Blikar hafa endað í 2. sæti Pepsi Max-deildar karla undanfarin tvö ár. vísir/bára

Íþróttadeild Vísis og Stöðvar 2 Sports spáir að venju fyrir um gengi liðanna í Pepsi Max-deild karla með árlegri spá sinni fyrir mótið. Keppni í Pepsi Max-deild karla hefst með leik Vals og KR laugardagskvöldið 13. júní. KR-ingar eiga titil að verja en þeir urðu Íslandsmeistarar í 27. sinn í sögu félagsins í fyrra.

Íþróttadeild spáir Breiðabliki 3. sæti Pepsi Max-deildarinnar í sumar. Þrátt fyrir að Blikar hafi lent í 2. sæti undanfarin tvö ár vildu forráðamenn félagsins meira, létu Ágúst Gylfason fara og réðu Óskar Hrafn Þorvaldsson sem hafði gert magnaða hluti með Gróttu.

Óskar Hrafn hefur umturnað leikstíl Breiðabliks og mikil tilhlökkun er fyrir tímabilinu í Kópavoginum. Blikar eru með gríðarlega sterkan mannskap, spila skemmtilegan fótbolta og hafa verið ófeimnir við að segja að þeir ætli að berjast um Íslandsmeistaratitilinn sem þeir unnu í fyrsta og eina sinn fyrir áratug.

Eftir að hafa náð einstökum árangri með Gróttu og stýrt liðinu upp um tvær deildir á jafn mörgum árum var Óskar Hrafn einn feitasti bitinn á íslenska þjálfaramarkaðnum. Breiðablik krækti í hann og miklar vonir eru bundnar við Óskar Hrafn í Kópavoginum, enda þjálfari ársins á Íslandi 2019, hvorki meira né minna. Óskar Hrafn þurfti að hætta ungur að spila vegna meiðsla og starfaði svo lengi við fjölmiðla áður en hann hellti sér út í þjálfun. Er aðeins á sínu þriðja tímabili sem þjálfari meistaraflokks.

Breiðablik í Kópavogi

  • 1 Íslandsmeistaratitill
  • 1 bikarmeistaratitill
  • 15 tímabil samfellt í efstu deild (2006-)
  • 10 ár frá síðasta Íslandsmeistaratitli (2010)
  • 11 ár frá síðasta bikarmeistaratitli (2009)
  • 5 tímabil í röð í efri hluta (2015-)
  • Uppáhaldssæti í tólf liða deild: 4 sinnum í 2. sæti

Síðasta tímabil

Breiðablik tók annað sætið annað árið í röð en það voru viss vonbrigði ekki síst þar sem Blikar enduðu heilum fjórtán stigum á eftir Íslandsmeisturum KR. Breiðabliksliðið fékk tækifæri til að komast í toppsætið í elleftu umferð en tapaði þá fyrir KR og var síðan komið tíu stigum á eftir Vesturbæingum aðeins þremur umferðum síðar. Júlímánuðurinn var hryllilegur í Smáranum þar sem Blikaliðið vann ekki einn deildarleik og féll líka út úr Evrópukeppninni á móti liði frá Liechtenstein. Blikar skoruðu flest mörk í deildinni en það vantaði upp á stöðugleikann og einbeitingu á móti lakari liðum á heimavelli.

Liðið og leikmenn

Líklegt byrjunarlið Breiðabliks í sumar.vísir/toggi

Aðal leikkerfi Breiðabliks í sumar verður væntanlega hið óvenjulega 3-6-1, með þrjá miðverði, tígulmiðju, tvo kantmenn og einn framherja. Anton Ari Einarsson tók við markvarðarstöðunni hjá Blikum af Gunnleifi Gunnleifssyni og mikið mun mæða á honum í sumar. Markvörðurinn gegnir lykilhlutverki í leikstíl Óskars Hrafns og er í raun eins og ellefti útispilarinn. Hlutverk hans er vanþakklátt og hann er oft og iðulega settur í erfiðar stöður. Breiðablik er með svakalega gott úrval af miðjumönnum en vantar helst breidd í kantstöðunum. Í framlínunni er svo engin spurning hver er fyrsti kostur; Daninn Thomas Mikkelsen sem hefur skorað eins og óður maður síðan hann kom til Breiðabliks um mitt sumar 2018.

Lykilmennirnir

Damir Muminovic, Höskuldur Gunnlaugsson og Thomas Mikkelsen.vísir/vilhelm

Damir Muminovic (f. 1990): Mikilvægasti og stöðugasti hlekkurinn í vörn Breiðabliks. Damir er löngu búinn að festa sig í sessi sem einn af betri miðvörðum deildarinnar; gríðarlega fastur fyrir en einnig skynsamur og vel meðvitaður um hvað er að gerast í leiknum. Hann ætti jafnframt að ráða vel við það þurfi hann að taka virkari þátt í spilinu.

Höskuldur Gunnlaugsson (f. 1994): Sneri aftur í íslenska boltann og skoraði 13 mörk í 24 leikjum í deild og bikar á síðasta tímabili. Höskuldur, sem býr yfir góðri tækni og veit líka vel hvar hann á að staðsetja sig við mark andstæðinganna, virðist kannski ekki sá kjaftaglaðasti út á við en er leiðtogi í Blikaliðinu og orðinn fyrirliði. Það gefur liðum mikið þegar einn hæfileikaríkasti, eða allra hæfileikaríkasti, leikmaðurinn er jafn vinnusamur og Höskuldur er.

Thomas Mikkelsen (f. 1990): Daninn er einn allra besti markaskorari deildarinnar, algjör gammur í teignum sem þarf lítinn tíma og lítið pláss til að koma tuðrunni síðasta spölinn í netið. Hann skoraði 10 mörk í 11 leikjum á sinni fyrstu leiktíð í deildinni og 13 mörk í fyrra, en það er spurning hvort að nýr leikstíll Blika krefjist meiri hlaupa af honum eða hvort hann fái að einbeita sér að því sem hann gerir best — að pota boltanum inn.

Markaðurinn

Vísir/Toggi

Blikar sáu vissulega á eftir kanónum á miðju tímabili í fyrra en frá lokum síðasta tímabils hefur liðið ekki misst neina leikmenn sem sárt verður saknað, fyrir utan Alfons sem komið hafði að láni 1. ágúst. Hins vegar hefur liðið sótt sér nýjan aðalmarkvörð í Antoni Ara, sem sjálfsagt vill ólmur sanna sig eftir að hafa þurft að víkja hjá Val, og Oliver Sigurjónsson er mættur aftur á miðjuna eftir misheppnaða dvöl í Noregi. Kristinn Steindórsson er sömuleiðis kominn heim og hefur margt að sanna. Kwame Quee kom aftur úr láni og hefur látið að sér kveða í undirbúningsleikjunum, og Blikar keyptu sér efnilegan varnarmann í Róberti Orra Þorkelssyni frá Aftureldingu.

Þarf að gera betur en í fyrra

Eftir góð tímabil 2017 og 2018 fékk Gísli tækifæri í atvinnumennsku.vísir/bára

Eftir stutta dvöl hjá Mjällby í Svíþjóð kom Gísli Eyjólfsson aftur til Breiðabliks um mitt síðasta sumar. Náði ekki að sýna sínar bestu hliðar í þeim tíu leikjum sem hann spilaði í Pepsi Max-deildinni og ljóst er að hann á mikið inni. Gísli er gríðarlega öflugur miðjumaður sem gaman er að horfa á spila. Ætti að njóta sín vel í breyttum leikstíl Breiðabliks og gæti hæglega átt tíu marka tímabil.

Heimavöllurinn

Stuðningsmenn Breiðabliks mæta jafnan vel á leiki liðsins.vísir/bára

Kópavogsvöllur er glæsilegur, með mjög góða stúku öðru megin og þá gömlu enn til staðar við hina hliðarlínuna, en keppnisvöllurinn sjálfur var lagður gervigrasi fyrir síðustu leiktíð. Reyndar neyddust Blikar til að spila fyrsta „heimaleikinn“ sinn í fyrra í Árbæ en sá leikur vannst. Á nýja vellinum gekk Blikum hins vegar illa, en þeir unnu aðeins fjóra af 10 leikjum þar, gerðu þrjú jafntefli og töpuðu þremur. Liðið fékk fleiri stig á útivelli en heima, en stemningin var fín í Kópavogi og þangað mættu næstflestir áhorfendur að meðaltali á síðustu leiktíð, eða 1.344.

Hvað segir sérfræðingurinn?

„Blikarnir geta farið alla leið í sumar,“ segir Þorkell Máni Pétursson, einn af sérfræðingunum í Pepsi Max Stúkunni í sumar.

„Breiðablik er með frábæran leikmannahóp, og ég geri ráð fyrir að Blikar séu í töluvert góðu formi. Þeir munu fara af stað með að spila ákveðinn fótbolta, maður hefur séð hann núna í undirbúningsleikjunum, og þetta er hálfpartinn 4. flokks fótbolta því það er svo mikið að gerast – mikið aksjón og mikið af mörkum. Fyrir mitt leyti er það mjög skemmtilegt. Þegar menn ná að drilla þetta betur saman verður liðið enn betra og ég held að það vaxi með hverjum leik sem það spilar. Það er mjög jákvætt að fara inn í mótið með eitthvað plan, sjá svo hvernig það virkar og þá er alltaf hægt að breyta um taktík. Það er það mikil reynsla í liðinu og þjálfararnir eru það góðir,“ segir Máni og bætir við:

„Svo á maður aldrei að vanmeta innviði félaga þegar kemur að svona spám og öðru. Þess vegna finnst mér alveg ljóst að Blikarnir taki Evrópusæti, og þeir gætu farið alla leið en það gæti tekið þá meiri tíma. Þeir gætu þurft að tapa titlinum einu sinni áður en þeir ná honum. En ég er mjög spenntur fyrir þessu Blikaliði og held að það verði mjög gaman að fylgjast með því í sumar.“

Sagan

Árin líða

  • Fyrir fimm árum (2015) ... A-deild (2. sæti)
  • Fyrir tíu árum (2010) ... Íslandsmeistari
  • Fyrir tuttugu árum (2000) ... A-deild (7. sæti)
  • Fyrir fjörutíu árum (1980) ... A-deild (5. sæti)
  • Fyrir sextíu árum (1960) ... B-deild
Vísir/Toggi

Breiðabliksliðið var sókndjarft í Pepsi Max deildinni á síðustu leiktíð en ekkert lið í deildinni reyndi fleiri skot. Blikar voru með tvö fleiri skot en næsta lið.

Blikar voru líka það lið sem skoraði flest mörk með skotum fyrir utan teig og það lið sem fékk flest mörk frá varamönnum sínum.

Einn leikmaður hefur þó verið í sérflokki þegar kemur að markaskorun Breiðabliksliðsins á síðustu tveimur tímabilum. Daninn Thomas Mikkelsen hefur skorað 23 mörk á þessum tveimur tímabilum eða sextán mörkum meira en næstu menn.

Blikar voru sérstaklega öflugir í seinni hálfleikjum leikjanna sinna í fyrra en þá vann liðið með fjórtán marka mun eða 29-15. Blikar voru með langbestu markatöluna eftir hlé og fimm mörkum framar en Íslandsmeistarar KR.

Lykiltölur síðasta tímabils

Vísir/Toggi

Thomas Mikkelsen var ekki aðeins markahæsti leikmaður Breiðabliks í Pepsi Max deildinni í fyrra og sá sem átti þátt í flestum mörkum því hann var mjög áberandi á fleiri topplistum.

Thomas Mikkelsen átti þátt í flestum markasóknum liðsins, reyndi flest skot, braut oftast af sér og fór upp í flest skallaeinvígi.

Aron Bjarnason gaf flestar stoðsendingar þrátt fyrir að yfirgefa Blika um mitt mót.

Höskuldur Gunnlaugsson reyndi flesta einleiki og fiskaði flest brot en Viktor Örn Margeirsson fór í flestar tæklingar og Damir Muminovic vann flesta bolta.

Að lokum

Óskar Hrafn á að koma Breiðabliki í hæstu hæðir.vísir/egill

Breiðablik er sennilega mest spennandi lið landsins í dag. Leikstíll liðsins er þess eðlis. Blikar taka mikla áhættu sem hefur sína kosti og galla. Liðið getur stjórnað leikjum og haldið andstæðingnum í hálfgerðri gíslingu en getur líka fengið á sig ódýr mörk eins og gertst hefur á undirbúningstímabilinu.

Undanfarin ár hefur Breiðablik misst lykilmenn á miðju tímabili en ólíklegra er að það gerist í sumar, m.a. vegna kórónuveirufaraldursins. Blikar fengu á sig óvenju mörg mörk í fyrra og þurfa aðeins að herða skrúfurnar í vörninni. En annars eru þeir með allt til alls til að fara alla leið

Ágúst náði góðum árangri með Breiðablik en þar á bæ vilja menn gera betur enn betur. Pressan á Óskari Hrafni er því talsvert; bæði að bjóða upp á góðan fótbolta og ná árangri.


Tengdar fréttir






×