Ný löggjöf um öryggismál fyrir Hong Kong var samþykkt á ársþingi Kínverska kommúnistaflokksins í morgun þar sem bann er lagt við landráðum og uppreisnaráróðri.
Stjórnarskrá Hong Kong hefur raunar alltaf gert ráð fyrir slíkri lagasetningu en hún hefur aldrei komist í gegnum þingið þar í landi frá því Kína tók við stjórnartaumunum í Hong Kong af Bretum árið 1997. Íbúar Hong Kong hafa hingað til búið við meira lýðræði en aðrir íbúar Kína.
Nú virðast kínversk stjórnvöld ætla að þröngva löggjöfinni upp á íbúa svæðisins, en mótmæli gegn kínverskum stjórnvöldum hafa verið tíð þar undanfarið.
Baráttumenn fyrir auknu lýðræði í Hong Kong hafa þegar mótmælt gjörningnum og óttast er að ný mótmælaalda blossi upp.