Tónlist

Föstudagsplaylisti Skoffíns

Hjalti Freyr Ragnarsson skrifar
Bjarni Daníel, Jóhannes Bjarki Bjarkason, Sævar Andri Sigurðarson og Auðunn Orri Sigurvinsson mynda Skoffín.
Bjarni Daníel, Jóhannes Bjarki Bjarkason, Sævar Andri Sigurðarson og Auðunn Orri Sigurvinsson mynda Skoffín. Gunnlöð Jóna Rúnarsdóttir

Til að byrja með var Jóhannes Bjarki Bjarkason Skoffín en það hefur vaxið umtalsvert síðan þá. Nú er sólóverkefnið orðið að fullskipaðri hljómsveit og í dag kemur út önnur breiðskífa verkefnisins.

Platan heitir Skoffín hentar íslenskum aðstæðum en lagalistann sem Jói setti saman fyrir Vísi er titlaður Skoffín hefur það náðugt heima hjá sér.

Breiðskífan var tekin upp í London af bróður Jóa, Árna Hjörvari, sem er þekktur fyrir aðild sína að verkefninu The Vaccines.

„Platan reynir að draga fram og skapa andrúmsloft Íslands í Kalda stríðinu og er fagurfræðin byggð á hversdagslegum veruleika íslenskrar menningar. Ekki kaffi og kleinur heldur krosssaumur og steinsteypa,“ segir Jói um hugmyndafræðina á bak við útgáfuna nýju. Textarnir séu fjölbreyttir en eigi það sameiginlegt að „reyna að draga fram kvíða hversdagsins í gegnum aþýðlegar vísanir.“

Lagalisti Skoffíns er fjölbreytilegur en friðsæll. Jói hafði eftirfarandi um listann að segja.

„Föstudagsplaylistinn minn að þessu sinni er mikil blanda hvaðanæva að. Upphaflega lagði ég upp með það að stilla inn lögum sem ég set á þegar ég býð fólki í heimsókn á föstudagskvöldum eða þegar ég geri mig til fyrir partý. Þegar listinn var tilbúinn, fullkominn, sniðinn í rétta stærð, rann upp fyrir mér að ég hafði ekki farið í partý í margar vikur. Því setti ég hann aftur upp með það fyrir augum að þetta væru lögin sem ég hlustaði á þegar ég undirbý kvöldmat með ástkonu minni.

„Skoffín hefur það náðugt heima hjá sér“ hefur að geyma margvíslega strauma og stefnur. Mörg lög eru þau sem mótuðu mig sem tónlistarmann, önnur eftir góða vini og að lokum lög sem mér finnst eiga rétt á sterkara sæti í kanónu danstónlistar. Sömuleiðis hafa mörg laganna haft áhrif og verið innblástur fyrir nýjustu plötu Skoffíns sem kemur út í dag og eru í miklu uppáhaldi hjá okkur í hljómsveitinni.“

Til að fræðast frekar um plötuna má hér hlýða á útvarpsþáttinn Straum frá því fyrr í vikunni, en þar sat gítartvíeyki sveitarinnar, Jói ásamt Bjarna Daníel, fyrir svörum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×