Erlent

Af­gönsk yfir­völd leysa 900 Talí­bana úr haldi

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Fangar úr röðum Talíbana bíða eftir að vera leystir úr haldi af afgönskum yfirvöldum.
Fangar úr röðum Talíbana bíða eftir að vera leystir úr haldi af afgönskum yfirvöldum. EPA/STR

Afgönsk yfirvöld tilkynntu í dag að þau hyggðust leysa 900 vígamenn Talíbana úr haldi og báðu hryðjuverkahópinn jafnframt að framlengja þriggja daga vopnahlé sem á að enda á þriðjudagskvöld. Þetta er hluti af fangaskiptum sem sammælst var um með samningi milli Talíbana og Bandaríkjanna í Doha í febrúar.

Bandaríkin þjónuðu hlutverki milligöngumanns í friðarviðræðum Talíbana og Afganistan í von um að ljúka tveggja áratuga löngu stríði. Fangaskiptin eru þau fjölmennustu sem gerð hafa verið milli stríðandi fylkinga.

Javid Faisal, talsmaður þjóðaröryggisráðgjafa Afganistan, sagði á blaðamannafundi að framlenging vopnahlés sé nauðsynleg til að forðast frekari blóðsúthellingar og að Afganska ríkisstjórnin væri undirbúin fyrir vopnahléið.

Talíbanar tilkynntu þriggja daga vopnahlé fyrir trúarhátíðina Eid al-Fitr sem lýkur Ramadan, helgum mánuði múslima. Talíbanar hafa enn ekki tilkynnt hvort þeir séu tilbúnir til að framlengja vopnahléinu eftir að því líkur á miðnætti að staðartíma.

Í síðasta mánuði neitaði hópurinn vopnahléi sem afgönsk stjórnvöld kölluðu eftir fyrir Ramadan mánuðinn. Átök milli afganskra fylkinga og Talíbana urðu meiri áður en vopnahléið skall á og ríkisstjórn landsins gaf það út að árásir myndu hefjast að nýju á stríðandi fylkingu talíbana vegna mannskæðra árása sem gerðar voru í liðnum mánuði.

Fangaskiptaferlið hófst í apríl en hefur verið fremur hægt og hefur frestast vegna átaka milli ríkisins og Talíbana. Samkvæmt Doha samningnum á Afganistan að leysa 5.000 fanga úr haldi á meðan Talíbanar eiga að leysa þúsund hermenn Afganistan úr haldi.

Nú hafa afgönsk yfirvöld leyst þúsund vígamenn úr haldi og Talíbanar 105 samkvæmt upplýsingum sem Faisal, talsmaður þjóðaröryggisráðgjafans Hamdullah Mohib, gaf fréttastofu Reuters fyrir blaðamannafundinn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×