Enski boltinn

Faðir stjóra Aston Villa lést af völdum veirunnar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Dean Smith missti föður sinn í gær.
Dean Smith missti föður sinn í gær. getty/Neville Williams

Ron Smith, faðir Deans Smith, knattspyrnustjóra Aston Villa, er látinn af völdum Covid-19. Hann var 79 ára.

Ron Smith greindist með kórónuveiruna fyrir fjórum vikum síðan. Hann lést á spítala í gær. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Aston Villa.

Ron Smith var dyggur stuðningsmaður Aston Villa og vann um tíma fyrir félagið. Í tilkynningunni frá Aston Villa kemur fram að Ron Smith hafi m.a. verið viðstaddur þegar liðið vann Bayern München, 1-0, í úrslitaleik Evrópukeppni meistaraliða 1982.

Börn Rons Smith héldu einnig með Aston Villa og sonur hans, Dean, tók við liðinu í október 2018.

Undir hans stjórn fór Aston Villa upp í ensku úrvalsdeildina í fyrra. Liðið var í nítjánda og næstneðsta sæti hennar þegar keppni var sett á ís vegna kórónuveirufaraldursins. Þá komst Aston Villa í úrslit deildabikarsins þar sem liðið tapaði fyrir Manchester City, 2-1.

Dean Smith skrifaði undir nýjan samning við Aston Villa í lok nóvember í fyrra. Samningurinn gildir til 2023.

Hann er ekki eini stjórinn í ensku úrvalsdeildinni hefur misst foreldri vegna veirunnar. Móðir Peps Guardiola, stjóra Manchester City, lést í apríl, 82 ára að aldri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×