Landsbankinn hefur gert breytingar á vaxtatöflu sinni eftir stýrivaxtalækkunina á miðvikudag í síðustu viku. Eins og Vísir greindi frá í gær hafði enginn þriggja stóru bankana brugðist við stýrivaxtalækkuninni, þrátt fyrir hvatningarorð seðlabankastjóra um að skila henni til viðskiptavina sinna.
Í orðsendingu Landsbankans segir að meðfylgjandi vaxtabreytingar taki gildi þann 1. júní næstkomandi. Landsbankinn lækkaði síðast vexti þann 14. apríl síðastliðinn en sú lækkun er sögð hafa einkum tekið mið af lækkun á bankaskatti.
Breytingar á vaxtatöflu Landsbankans frá og með mánaðamótum eru svohljóðandi:
Breytilegir vextir óverðtryggðra íbúðalána lækka um 0,50 prósentustig. Fastir vextir óverðtryggðra íbúðalána lækka um 0,50 prósentustig og vextir verðtryggðra íbúðalána lækka um 0,30 prósentustig.
Kjörvextir óverðtryggðra útlána lækka um 0,50 prósentustig og kjörvextir verðtryggðra lána lækka um 0,30 prósentustig. Vextir óverðtryggðra lána vegna bíla- og tækjafjármögnunar lækka um 0,50 prósentustig. Yfirdráttarvextir lækka um allt að 0,75 prósentustig.
Innlánsvextir lækka um 0,05 - 0,75 prósentustig.