Fótbolti

Tíu þúsund sýndaráhorfendur á leik Jóns Dags og félaga í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jón Dagur Þorsteinsson með boltann í leik AGF og Randers í gær en fyrir aftan hann má sjá sýndaráhorfendurnar sem studdu liðið sitt í gegnum Zoom fjarfundabúnaðinn.
Jón Dagur Þorsteinsson með boltann í leik AGF og Randers í gær en fyrir aftan hann má sjá sýndaráhorfendurnar sem studdu liðið sitt í gegnum Zoom fjarfundabúnaðinn. EPA-EFE/HENNING BAGGER

Íslenski knattspyrnumaðurinn Jón Dagur Þorsteinsson var í liði AGF Aarhus í gær þegar liðið spilaði vægast sagt mjög skrýtinn heimaleik.

Það var ekki nóg með að þetta var fyrsti alvöru knattspyrnuleikur liðanna í langan tíma þá var umgjörðin í kringum leikinn afar sérstök.

AGF tók þarna á móti Randers á heimavelli sínum Ceres Park sem var ekki með neina alvöru áhorfendur en það voru samt áhorfendur á vellinum í gegn fjarfundabúnaðinn Zoom.

Alls fengu tíu þúsund stuðningsmenn AGF að fá að vera með á þessu risa Zoom-spjalli. AGF var síðan með fullt af skjáum á vellinum þar sem áhorfendurnir sáust í gegnum fjarfundakerfið.

Skjáirnir voru niðri við leikvöllinn og fóru ekkert framhjá leikmönnunum sem spiluðu þennan leik.

Hér fyrir neðan má sjá hvernig skjáunum var stillt upp neðst í áhorfendastúkunni og þeir voru því ekki lang frá vellinum sjálfum.

Leikurinn endaði með 1-1 jafntefli en Jón Dagur var tekinn af velli á 67. mínútu þegar AGF var marki undir. Jöfnunarmarkið kom ekki fyrr en í uppbótatíma.

Þetta var athyglisverð tilraun hjá AGF og setti vissulega mikinn svip á leikinn. Það voru samt einhverjir mjög ósáttir því þeir héldu að þeir fengu að sjá leikinn í gegnum Zoom en svo var ekki.

Discovery á sjónvarpsréttinn frá dönsku deildinni og þessir fjaráhorfendur þurftu því að vera að horfa á sjónvarpið sitt ætluðu þeir að sjá hvað var að gerast inn á vellinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×