Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, kveðst hlynntur breytingum á stjórnarskrá sem feli í sér að tiltekinn hluti kjósenda geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu
Innan við þrjár vikur eru nú til kosninga en Guðni Th. og mótframbjóðandi hans Guðmundur Franklín voru gestir Heimis Más Péturssonar í Víglínunni í dag.
Sitjandi forseti var spurður um afstöðu sína til þingrofs og synjunarvalds forseta.
„Mergur málsins er sá að þeir sem eru á móti því að lögin öðlist gildi með því að forseti staðfesti þau vita að áskoranir þarf og þá er safnað undirskriftum. Í þessum tilfellum, búvörusamningnum og orkupakkanum erum við að tala um vel innan við þrjú prósent kjósenda. Það er miklu lægra hlutfall en nokkrum hefur dottið í hug í þessum efnum,“ sagði Guðni.
Hann kveðst enn hlynntur því að gerðar verði breytingar á stjórnarskrá þegar kemur að þjóðaratkvæðagreiðslum
„Við eigum að fá í stjórnarskrá ákvæði um það að tiltekinn hluti kjósenda geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um lög þingsins. Þetta er sú þróun sem við höfum verið að sjá hér á Íslandi og fólk vill sjá,“ sagði Guðni.