Körfubolti

„Mikil tækifæri fyrir austan varðandi körfuboltann“

Sindri Sverrisson skrifar
Sigurður Gunnar Þorsteinsson er kominn í búning Hattar.
Sigurður Gunnar Þorsteinsson er kominn í búning Hattar. mynd/stöð 2

Sigurður Gunnar Þorsteinsson skrifaði í dag undir samning við körfuknattleiksdeild Hattar og er stærsti biti sem félagið hefur fengið á íslenskum markaði, að sögn þjálfara liðsins.

Sigurður kemur á Egilsstaði eftir að hafa síðast verið í Breiðholti hjá ÍR, og átt ríkan þátt í að koma liðinu í eftirminnilegt úrslitaeinvígi við KR í Domino's-deildinni vorið 2019. Á síðustu leiktíð spilaði hann nánast ekki neitt vegna þess að hann sleit krossband í hné í fyrsta leik. Ljóst er að koma Ísafjarðartröllsins, sem á að baki 58 A-landsleiki, hjálpar leikmannahópi Hattar mikið en Höttur verður nýliði í Domino's-deildinni á næstu leiktíð.

„Maður er að fara út á land aftur, sem að heillar mig svolítið. Félagið sjálft heillar líka. Þeir flugu okkur austur fyrir nokkrum vikum og okkur leist mjög vel á hópinn. Það eru mikil tækifæri fyrir austan varðandi körfuboltann,“ sagði Sigurður við Svövu Kristínu Gretarsdóttur í Sportpakkanum.

„Þetta er stórt fyrir félagið. Siggi er nú, eftir þessa undirskrift, það stærsta sem við höfum náð í á íslenskum markaði. Hann er liður í því að við ætlum að taka næsta skref og við ætlum okkur stóra hluti næsta vetur,“ sagði Viðar Hafsteinsson, þjálfari Hattar.

Klippa: Sportpakkinn - Sigurður Gunnar til Hattar

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×