Karlmaður um fertugt vann 35,4 milljónir í lottó um helgina. Í fréttatilkynningu frá Íslenskri getspá segir að maðurinn hafi fengið símtal í vinnuna á mánudag þar sem honum voru færðar fréttirnar.
Maðurinn, sem hafði keypt miðann í gegnum lottóappið, hélt að um grín væri að ræða. Hann ætli sér að nýta vinninginn í að greiða niður skuldir, setja hluta í útborgun í íbúð og svo ætli hann að gleða foreldra sína og dóttur.
Rúmlega 70 milljónir voru í pottinum á laugardag en tveir miðaeigendur voru með allar tölur réttar. Hinn vinningshafinn hafði keypt miðann hjá Kvikk í Suðurfelli í Breiðholti en sá vinningshafi hefur enn ekki gefið sig fram.
Íslensk getspá hvetur miðaeigendur til þess að fara yfir lottómiða sína, enda gæti leynst þar vinningur.