Erlent

Nýtt met slegið í faraldrinum: Aldrei fleiri smit greinst á sólarhring

Andri Eysteinsson skrifar
Frá sýnatöku í Arísóna.
Frá sýnatöku í Arísóna. Vísir/AP

Í dag var met slegið í fjöldi nýgreindra kórónuveirusmita í heiminum samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni WHO. Yfir 183.000 tilfelli hafa verið staðfest af heilbrigðisyfirvöldum á undanförnum sólarhring.

AP greinir frá nýju meti í fjölda nýsmita en flest tilfellin greindust í Suður-Ameríkuríkinu Brasilíu sem nýlega bættist í hóp með Bandaríkjunum yfir þau ríki þar sem yfir milljón tilfelli kórónuveirunnar hafa greinst.

54.771 smit greindist í íbúum Brasilíu í dag en þar á eftir koma smitin 36,617 sem greindust í Bandaríkjunum á undanförnum 24 tímum.

Alls hafa því 8.708.008 verið greindir með kórónuveirusmit frá því að faraldurinn hófst í lok árs 2019. Dauðsföllum fjölgaði um 4.743 milli daga og hafa nú 461.715 látið lífið vegna faraldursins.

Samkvæmt fréttum AP voru meira en tveir þriðju hluta nýrra dauðsfalla í suður og norður Ameríku.

Sérfræðingar telja að metið hafi mögulega verið slegið þar sem að meira er skimað fyrir veirunni í fjölmörgum ríkjum ásamt þeirri staðreynd að hún breiðist enn hratt út í mörgum ríkjum heims.

Flest tilfelli kórónuveirunnar hafa greinst í Bandaríkjunum eða yfir 2.2 milljónir en þar hafa um 120.000 manns látist í faraldrinum samkvæmt upplýsingum frá Johns Hopkins háskólanum í Baltimore.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×