Arsenal upp í níunda sæti með sigri - Burnley vann án Jóhanns

Anton Ingi Leifsson skrifar
Eddie Nketiah fagnar marki sínu en Alex McCarthy er augljóslega óánægður með sjálfan sig.
Eddie Nketiah fagnar marki sínu en Alex McCarthy er augljóslega óánægður með sjálfan sig. VÍSIR/GETTY

Eftir að hafa tapað fyrstu tveimur leikjum sínum eftir hléið vegna kórónuveirufaraldursins komst Arsenal á beinu brautina í dag með 2-0 sigri á Southampton í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta. Burnley vann Watford 1-0.

Eddie Nketiah kom Arsenal yfir á 20. mínútu eftir skelfileg mistök Alex McCarthy í marki Southampton, en hann gaf boltann á Nketiah sem þakkaði fyrir sig og skoraði auðveldlega. Undir lok leiks, eða á 85. mínútu, fékk Jack Stephens í liði Southampton rautt spjald fyrir að brjóta á Pierre-Emerick Aubameyang sem aftasti maður, og skömmu síðar skoraði varamaðurinn Joe Willock seinna mark Arsenal.

Arsenal komst þar með upp í 9. sæti og er með 43 stig, sex stigum á eftir Manchester United og Wolves í baráttunni um Evrópusæti, þegar sjö umferðir eru eftir.

Jóhann Berg Guðmundsson var ekki með Burnley vegna meiðsla þegar liðið vann Watford 1-0. Markið skoraði Jay Rodriguez tuttugu mínútum fyrir leikslok. Burnley er í 11. sæti með 42 stig en Watford er stigi frá fallsæti.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira